Fengu fræðslu um Vaðlaheiðargöng

Stjórn Framsýnar hélt stjórnarfund í gær í Skógum í Fnjóskadal, það er á sögufrægum stað. Mörg mál voru á dagskrá fundarins auk þess sem Einar Hrafn Hjálmarsson staðarstjóri Vaðlaheiðarganganna hjá Ósafli gerði fundarmönnum grein fyrir stöðu framkvæmda og væntanlegum verklokum. Um 40 starfsmenn koma að framkvæmdinni. Af almennum starfsmönnum er um helmingur starfsmanna í Framsýn og fer þeim væntanlega fjölgandi á næstu mánuðum enda unnið við borunina á félagssvæði Framsýnar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum varð verktakinn að hætta borunum Eyjafjarðarmegin vegna leka og mikils hita í göngunum. Þess vegna varð verktakinn að færa borinn yfir í Fnjóskadal, fyrr en áætlað var. Um þessar mundir er búið að bora um þrjá kílómetra af 7,5 kílómetrum. Verklok eru áætluð í lok desember 2016 en framkvæmdir hófust 12. júlí 2013.

Stjórn Framsýnar fékk góða kynningu í gær á Vaðlaheiðargöngum.

Einar Hrafn Hjálmarsson staðarstjóri fór yfir framkvæmdina og svaraði fjölmörgum spurningum fundarmanna.

Mörg önnur mál voru á dagskrá fundarins. Hér er Huld að fara yfir breytingar á nýju réttindakerfi hjá Lsj Stapa.

Jakob Gunnar Hjaltalín var kjörinn á þing Sjómannasambandsins sem haldið verður í Reykjavík í byrjun desember.