Þingmenn svara

Framsýn hefur skorað á þingmenn kjördæmisins að gefa upp afstöðu þeirra til þess að Vinnumálastofnun loki þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík eftir mánuð, það er 1. desember.  Brynhildur Pétursdóttir skrifar til félagsins:

„Niðurskurður Vinnumálastofnunar á landsbyggðinni er ekki ásættanlegur. Fólk á auðvitað rétt á þessari þjónustu óháð búsetu en ekki síður finnst mér mikilvægt að hafa í huga að vísbendingar eru um að atvinnulausir flytji í stærri byggðarlög og þá helst suður. Til að sporna við þeirri þróun þarf að veita atvinnulausum aðstoð og þjónustu í sinni heimabyggð. Í ljósi þess að Vísir ákvað að hætta starfsemi á Húsavík mætti ætla að þörfin fyrir Vinnumálastofnun á svæðinu væri mikil og því kemur þessi ákvörðun á óvart. Nú á líka að stytta atvinnuleysisbótatímabilið og þá þurfum við að setja aukinn kraft í virkniúrræði og aðstoð við atvinnulausa. Vinnumálastofnun hefur þar skyldum að gegna.“

Kær kveðja

Brynhildur