Kallað eftir afstöðu þingmanna

Í bréfi til þingmanna Norðausturkjördæmis í dag óskar stéttarfélagið Framsýn eftir afstöðu þingmanna kjördæmisins til lokunar á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Húsavík þann 1. desember 2014, sjá bréfið:

Ágætu þingmenn

Vinnumálastofnun hefur boðað að þjónustuskrifstofu stofnunarinnar verði lokað á Húsavík þann 1. desember 2014. Í því sambandi hefur starfsmanni sem verið hefur í 40% starfi verið sagt upp störfum hjá stofnuninni. Samhliða þessari ákvörðun hefur skrifstofuhúsnæði sem starfsmaðurinn hefur haft til umráða verið sagt upp.

Heildarkostnaður við starfið, laun, launatengd gjöld og húsnæði, hefur verið um þrjár milljónir á ári, það sama og starfsmönnum Fiskistofu er boðið í flutningsstyrki flytji þeir með stofnuninni frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar.

Framsýn hefur komið óánægju sinni vel á framfæri, með ályktun, fundum með forstjóra Vinnumálastofnunnar og félags- og húsnæðismálaráðherra.

Þjónusta Vinnumálastofnunar er afar mikilvæg fyrir félagssvæði stéttarfélaganna sem nær yfir um 17% af landinu. Starfsmaðurinn hefur sérstaklega sinnt atvinnuleitendum, erlendum starfsmönnum á svæðinu og þeim sem hafa þurft á þjónustu að halda varðandi Fæðingarorlofssjóð.

Með þessu bréfi vill Framsýn benda á mikilvægi þess að Vinnumálastofnun skeri ekki niður þetta starf eða dragi úr þjónustu við atvinnuleitendur almennt í Þingeyjarsýslum. Jafnframt er þess óskað að þingmenn í kjördæmi Framsýnar svari því með skriflegum hætti hver afstaða þeirra er til þess að starfið verði ekki lagt niður á Húsavík. Svörin verða síðan birt inn á heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is þar sem mikilvægt er að íbúar á svæðinu séu meðvitaðir um afstöðu þingmanna til þessa máls sem skiptir samfélagið miklu máli.

Verði bréfinu ekki svarað fyrir mánudaginn 3. nóvember 2014 verður litið svo á að viðkomandi þingmenn hafi ekki skoðun á málinu.

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar, stéttarfélags

Aðalsteinn Á. BaldurssonFramsýn hefur fundað með mörgum varðandi þetta mikilvæga mál, það er að Vinnumálastofnun loki ekki þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík eftir um mánuð. Hér er formaður Framsýnar og forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi að fara yfir málið. Áður hefur verið fundað með ráðherra vinnumála, forstjóra Vinnumálastofnunar og sveitarstjóra Norðurþings auk samtala sem hafa átt sér stað við þingmenn og sveitarstjórnarmenn á félagssvæði Framsýnar.