Fram kom í máli margra formanna sem sátu samninganefndarfund hjá Starfsgreinasambandinu á fimmtudaginn var, að ástandið í kjaramálum fólks sem starfar innan ferðaþjónustunnar hefur aldrei verið jafn slæmt. Í sumar hafa komið óvenju mörg mál inn á borð stéttarfélaganna sem fjalla um að ekki eru greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Einn fundarmanna gekk svo langt að segja: „Það er varla að það komin inn launamanneskja með rétt laun í veitingabransanum.“ Fundarmenn voru sammála um að ekki væri endilega um að ræða svik og pretti heldur væru atvinnurekendur oft illa upplýstir um kjarasamninga og leita sér ekki réttra upplýsinga.
Algengt er að greitt sé vaktaálag í stað yfirvinnu þó að ekki sé um eiginlegar vaktir að ræða. Jafnaðarkaup er algengt þar sem ekki er gerður greinarmunur á dagsvinnu og yfirvinnu og jafnvel eru þess dæmi að starfsfólk sé á dagvinnukaupi á kvöldin og um helgar. Þá er svört vinna allt of tíð og sömuleiðis að ekki sé skilað af fólki gjöldum í stéttarfélög, lífeyrissjóði, starfsmenntasjóði, sjúkrasjóði o.s.frv.. Slíkt rýrir réttindi starfsfólks verulega og dæmi eru um að fólk sé jafnvel ekki tryggt í vinnunni. Atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir því að þá eru þeir skaðabótaskyldir ef eitthvað kemur fyrir.
Verkalýðsfélög um allt land hafa staðið í ströngu við að reikna út rétt laun, sækja leiðréttingar fyrir starfsfólk, heimsækja vinnustaði og upplýsa launagreiðendur og starfsfólk um þá samninga sem gilda á vinnumarkaði. Fjölmiðlaumræðan í sumar hefur hjálpað mikið til enda er forsenda þess að fólk leiti réttar síns að það viti að á því sé brotið.
Á samninganefndarfundinum var rætt um aðgerðir og ljóst er að upplýsingaátak þarf til fyrir atvinnurekendur og bera atvinnurekendasamtök þar þunga ábyrgð. Þá var einnig velt vöngum yfir því hvernig hægt er að bæta kjarasamninga á ferðaþjónustu- og veitingageiranum og hvort tími sé til kominn að einfalda þá þannig að einungis sé heimilt að greiða dagvinnu og yfirvinnu en ekki vaktavinnu. Þetta verður tekið til umræðu við kröfugerð í aðdraganda kjarasamninga í haust. Sem heild á atvinnugreinin erfitt með að standa samninga þó vissulega séu margir atvinnurekendur sem leggja metnað sinn í að vera með allt á hreinu.