Eins og lesendur heimasíðunnar hafa orðið varir við hafa fulltrúar Framsýnar verið mikið á ferðinni í sumar m.a. í Mývatnssveit. Þar er ferðaþjónustan í miklum blóma og hugur er í forsvarsmönnum fyrirtækjanna að gera enn betur við þá gesti sem heimsækja sveitina fögru. Eitt af því sem er orðið mjög aðkallandi að mati heimamanna er að efla verslun á svæðinu en núverandi verslun Samkaupa í Mývatnssveit annar engan veginn þeim mikla fjölda ferðamanna sem koma í sveitina, sérstaklega yfir sumarið. Framsýn tekur undir þessar skoðanir heimamanna og telur auk þess brýnt að Samkaup taki til skoðunar að skipta versluninni Strax út fyrir ódýrari búð en keðjan Samkaup rekur nokkrar verslanir undir sínum merkjum sem byggja á mismunandi vöruverði og vöruúrvali. Til dæmis rekur Samkaup tvær verslanir á Húsavík, Úrval og Kaskó sem bjóða viðskiptavinum upp á ódýrara vöruverð en Mývetningum og gestum þeirra er boðið upp á í versluninni Strax. Framsýn skorar á Samkaup að bregðast nú þegar við þessum ábendingum.
Það er orðið mjög aðkallandi að stækka verslun Samkaupa í Mývatnssveit auk þess að viðskiptavinum Samkaupa verði boðið upp á hagstæðara vöruverð.