Framsýn vill aukið samráð

Á síðasta stjórnarfundi í Framsýn urðu töluverðar umræður m.a. um mikilvægi þess að hagsmunaaðilar í Þingeyjarsýslu vinni betur saman að sameiginlegum málum í héraðinu, sérstaklega er varðar samfélags-, atvinnu- og byggðamál. Félagið telur að skort hafi á samstöðuna.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er um þessar mundir fast sótt að opinberri þjónustu í héraðinu. Talað er um að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi, sýslumannsembættin og lögregluembættin. Ekki er ólíklegt að þessar sameiningar kalli á fækkun starfsmanna auk þess sem þjónustustigið hjá nýjum stofnunum liggur ekki fyrir. Þá hafa verið uppi umræður um stöðu Raufarhafnar þar sem sérstakt verkefni hefur verið í gangi að frumkvæði Byggðastofnunnar og heimamanna.  Fleiri dæmi má nefna eins og lokun Vísis hf. á Húsavík þar sem fjölmennur vinnustaður var lagður niður með mánaðar fyrirvara án þess að hægt væri að bregðast við því.

Þingeyingar standa einnig frammi fyrir sóknartækifærum í atvinnu- og samgöngumálum verði rétt haldið á spilunum. Nægir þar að nefna hugsanlega uppbyggingu á Bakka og í ferðaþjónustu ekki síst í Mývatnssveit. Jafnframt koma Vaðlaheiðagöng til með að opna nýja möguleika fyrir svæðið. Frekari samgöngumál eru til umræðu sem þarf að fylgja eftir s.s. Dettifossvegur.

Það er mat stjórnar Framsýnar að sveitarstjórnir, stéttarfélög og samtök atvinnurekenda í héraðinu í samráði við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga eigi að sameinast um að móta vettvang þessara aðila til að vinna að sameiginlegum málum er varðar velferð íbúa svæðisins til sóknar. Jafnframt er mikilvægt að sveitarfélög miðli sín á milli því helsta sem er að gerast í sveitarfélögunum á hverjum tíma.

Framsýn leggur áherslu á í samráði við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga að mótaður verði formlegur samstarfs vettvangur sveitarfélaga, fyrirtækja og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum til að berjast fyrir hagsmunum íbúa í Þingeyjarsýslu í samfélags- atvinnu- og byggðamálum.