Vilja sjá staðsetningu sýslumanns á Húsavík

Framsýn, stéttarfélag hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um staðsetningu sýslumannsins á Norðurlandi eystra. Þar er fagnað tillögum um að hann verði staðsettur á Húsavík fyrir Norðurland eystra.  

 Ályktun
Um staðsetningu sýslumannsins á Norðurlandi eystra 

„Samkvæmt  tillögum sem nú eru til umsagnar er mælt með því aðalskrifstofa sýslumannsins á Norðurlandi eystra verði á Húsavík.  Í tillögunum er jafnframt kveðið á um að aðalstöðvar lögreglustjóra verði í öðru bæjarfélagi en aðalskrifstofur  sýslumannsembættis. Þannig megi komast hjá röskun í byggðalegu tilliti. Þessar upplýsingar koma fram á vef innanríkisráðuneytisins og varða reglugerð um umdæmamörk og starfsstöðvar lögregluembætta og sýslumannsembætta. 

Framsýn, stéttarfélag fagnar framkomnum  tillögum varðandi staðsetningu embættis sýslumanns á Húsavík og telur afar mikilvægt að þær nái fram að ganga. Tillögurnar miða jafnframt að því að sýsluskrifstofur með fulla þjónustu verði einnig starfræktar á Akureyri og Siglufirði. 

Þá er talað fyrir því að  aðalstöð lögreglustjóra verði staðsett á Akureyri en lögreglustöðvar á Húsavík, Siglufirði, Dalvík og Þórshöfn. 

Skrifstofa sýslumannsins á Húsavík er vel í stakk búin að takast á við aukin verkefni. Skrifstofan er mönnuð hæfu og reynslumiklu starfsfólki auk þess sem Húsavík er miðsvæðis í umdæmi nýja sýslumannsembættisins.“

 Framsýn telur mikilvægt að embætti sýsluamnns fyrir Norðurland eystra verði á Húsavík og fagnar tillögum þess efnis.