Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að hefur undirritað kjarasamning við Landsvirkjun sem tekur gildi þann 1. júní 2014. Samningurinn gildir til 28. febrúar 2015 líkt og aðrir samningar á hinum almenna vinnumarkaði. Helstu breytingar samningsins eru þær að laun taka almennum hækkunum í samræmi við aðra samninga á vinnumarkaði en auk þess er samið um eingreiðslu, kr. 90.000 krónur miðað við fullt starf frá 1. janúar til 31. maí 2014. Orlofsuppbót verður 105.933 krónur á þessu ári og desemberuppbót verður einnig 105.933 krónur. Í samningnum var viðurkennt að ræstingar þurfa að hækka sérstaklega og var því búið til nýtt starfsheiti „starfsmenn við stöðvarþrif“ sem tekur launaflokk 144, sama launaflokk og matráðskonur. Þetta þýðir fimm launaflokka hækkun til þeirra starfsmanna sem annast þrif.
Næstu daga verður sent út kynningarefni til starfsmanna Landsvirkjunar innan SGS og þeim gefinn kostur á að greiða atkvæði um samninginn í póstatkvæðagreiðslu. Samninginn í heild auk nýrrar launatöflu má sjá hér .
Gengið hefur verið frá samningi við Landsvirkjun. Samningurinn gildir m.a. fyrir félagsmenn Framsýnar sem starfa í Kröflu og við Laxárvirkjun.