Félagsmenn fengu tæpar 30 milljónir úr sjúkrasjóði

Á aðalfundi Framsýnar síðasta fimmtudag kom fram að félagið greiddi félagsmönnum tæpar 30 milljónir í styrki úr sjúkrasjóði félagsins. 

Á árinu 2013 nutu 519 félagsmenn bóta úr sjúkrasjóði félagsins en voru 478 árið 2012. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 29.478.415,-. Sambærileg tala fyrir árið 2012 er kr. 24.544.265,-. Eins og sjá má varð veruleg hækkun á greiðslum til félagsmanna milli ára. Í því sambandi er rétt að geta þess að styrkupphæðir úr sjúkrasjóði voru hækkaðar umtalsvert á síðasta aðalfundi sem skýrir að mestu þessar miklu hækkanir milli ára. 

Félagsmenn Framsýnar hafa aðgengi að sterkum sjúkrasjóði sem hefur það markmið m.a. að styrkja félagsmenn í veikindum með greiðslu sjúkradagpeninga, það er eftir að veikindarétti lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki. Hér er Huld Aðalbjarnardóttir Skrifstofu- og fjármálastjóri Skrifstofu stéttarfélaganna að gera grein fyrir ársreikningum félagsins.