Framsýn skorar á sveitarstjórnarmenn

Á aðalfundi Framsýnar í gær var samþykkt að skora á sveitarstjórnarmenn í héraðinu að mótmæla fyrirhuguðum sameiningum heilbrigðisstofnana a á Norðurlandi. Sjá áskorunina: 

Áskorun
til frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum í Þingeyjarsýslum vorið 2014 

„Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga  mótmælir harðlega fyrirhuguðum sameiningum heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. 

Aðalfundurinn telur að ekki hafi komið fram rök fyrir hagkvæmni fyrirhugaðra sameininga eða að þær muni á nokkurn hátt bæta þá þjónustu sem nú þegar er á svæðinu.  Með sameiningunni eru jafnframt allar líkur á að opinberum störfum í Þingeyjarsýslum fækki enn frekar. 

Það er siðferðileg skylda sveitarstjórnarmanna að standa vörð um störf og þjónustu í sínu byggðarlagi.  Í ljósi þess beinir Framsýn því til frambjóðenda, að þeir nýti þau áhrif sem þeir hafa til að koma í veg fyrir fyrirhugaðar sameiningar, með hag samfélagsins að leiðarljósi. 

Framsýn skorast ekki undan ábyrgð og er reiðubúið að koma að því að verja þessa mikilvægu stofnun í héraðinu.“

Félagsmenn Framsýnar vilja standa vörð um opinbera þjónustu í Þingeyjarsýslum.