Fulltrúar Framsýnar funduðu í gær ásamt lögmönnum félagsins með forsvarsmönnum og lögfræðingum Vinnumálastofnunar. Tilefnið var ákvörðun fiskvinnslufyrirtækisins Vísis hf. að beina starfsmönnum fyrirtækisins á Húsavík á atvinnuleysisbætur 1. maí í stað þess að greiða þeim kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest þar sem fyrirtækið hefur ákveðið að loka starfstöð fyrirtækisins á Húsavík og flytja starfsemina til Grindavíkur.
Á fundinum með Vinnumálastofnun gerðu fulltrúar Framsýnar alvarlegar athugasemdir við ákvörðun Vísis hf. um að senda starfsmenn á atvinnuleysisbætur í stað þess að greiða þeim uppsagnarfrest. Í máli forsvarsmanna Vinnumálastofnunar kom fram að þeir munu eiga fund með fulltrúum Vísismanna á morgun, föstudag, og fara yfir málið með þeim.
Eftir fundinn með Vinnumálastofnun tók Framsýn ákvörðun um að krefjast þess að Vísir hf. staðfesti skriflega að laun starfsmanna á Húsavík verði greidd réttilega um næstu mánaðarmót. Slík staðfesting liggi fyrir í síðasta lagi 14. maí næstkomandi.
Verði ekki orðið við áskorun þessari og yfirlýsing gefin út í samræmi við ofanritað innan frests er einboðið að líta svo á að fyrirtækið muni vanefna skyldu sína til greiðslu launa samkvæmt kjarasamningi. Þar með mun Framsýn leita fulltingis dómstóla til að fá hlut félagsmanna sinna réttan.
Fulltrúar Framsýnar og lögmenn félagsins funduðu með forsvarsmönnum Vinnumálastofnunar í gær. Verði Vísir hf. ekki við kröfu Framsýnar um að greiða starfsmönnum laun verður deilunni vísað til dómsstóla í næstu viku.