Nánast ekkert starfsöryggi í fiskvinnslu- viðtal við formann Framsýnar

Það er með blendnum hug sem Húsvíkingar fagna frídegi verkalýðsins í dag. Hann er haldinn hátíðlegur í skugga þess að Vísir hf. í Grindavík hefur hætt fiskvinnslu sinni á Húsavík eftir um áratug á staðnum, en 60 manns unnu þar hjá fyrirtækinu.

Um 40 halda suður yfir heiðar til Grindavíkur til vinnu hjá Vísi í Grindavík. Kvotinn.is ræddi þessi mál við Húsvíkinginn Aðalstein Árna Baldursson, sem jafnframt er formaður Framsýnar stéttarfélags, sem með meðal annars fer með málefni fiskvinnslufólks.
„Fiskvinnslufólki hefur fækkað á undanförnum árum og ekki síst vegna þess að menn hafa verið að taka upp aukna tækni í fiskvinnslunni og jafnvel eru menn farnir að sjá fyrir sér að á komandi árum, þrátt fyrir að unnið verði svipað magn af fiski, muni fólki hald áfram að fækka í þessari atvinnugrein því farið er að boða nýjar vinnslulínur sem eru mannlausar. Við okkar megin óttumst það því dálítið að fólki í þessari mikilvægu atvinnugrein eigi enn eftir að fækka verulega. Auðvitað geta menn ekki staðið í vegi fyrir tækniframförum, en í þeim felast bæði ákveðin tækifæri og ógnanir. Við erum því ekki að sjá fyrir okkur að fiskvinnslufólki muni fjölga, heldur fækka,“ segir Aðalsteinn Árni.
„Sem betur fer hefur íslenskur sjávarútvegur gengið mjög vel á undanförnum árum á heildina litið og að sjálfsögðu hefðum við vilja sjá að fiskivinnslufólk fengi meira út úr þeim árangri sem hefur náðst, út úr þeirra stöðu sem verið hefur. Við höfum séð að fiskvinnslufólk hefur setið eftir á meðan til dæmis að laun sjómanna hafa í mörgum tilvikum verið með miklum ágætum, en þeir eru í hlutaskiptakerfi og fá því ákveðið hlutfall af innkomu skipanna en það á ekki við um fiskvinnslufólkið. Við erum margir ósáttir með það að fiskvinnslufólk skuli ekki hafa náð að fá meira útt úr þessum þáttum. En til að draga fram eitthvað jákvætt, hefur á undanförnum árum verið unnið mjög vel í bættri starfsaðstöðu í fiskvinnsluhúsum, þó víða megi gera betur. Þó sýna nýlegar tölur frá Vinnueftirlitinu að slysum í fiskvinnslu hefur ekki fækkað, heldur fjölgað ef eitthvað er. Á því þurfa enn að taka á í sameiningu og Vinnueftirlitið hefur kallað eftir samstarfi aðilja vinnumarkaðarins til að sporna gegn þeirri þróun.“
En staðan á Húsavík er væntanlega ekki góð núna eftir brotthvarf Vísis af staðnum?
„Nei, ég er í sárum því hér er Vísir hf. búinn að ákveða lokun á fiskvinnslu sinni og síðasti starfsdagur í einu öflugasta fyrirtæki sem hér hefur verið í gegnum tíðina, Fiskiðjusamlagi Húsavíkur og nú Vísi, var í gær. Þá gengu 60 starfsmenn út. Það sýnir hvernig veruleikinn er í dag, að óvissan og starföryggið í þessari atvinnugrein á Íslandi er nánast ekki neitt. Nú eru hér 60 starfsmenn með fjölskyldur sem standa uppi atvinnulausir. Þetta er smánarblettur á íslenskum sjávarútvegi að þetta skuli vera að gerast og hefur verið að gerast allt of oft víða um land. Maður upplifir sig sem vanmáttugan þegar svona gerist og hér er þetta eins og 3.000 manna vinnustað í Reykjavík væri lokað. Þetta eru sömu stærðarhlutföllin. Þannig að núna um leið og ég næ þeim áfanga að eiga 20 ára starfsafmæli, þá er mér enginn fögnuður í huga í ljósi þess að í morgun hef ég verið með starfsmenn þessa fyrirtækis, sem hafa verið að leita ráða hjá mér og eru að koma til að skrá sig atvinnulausa í næsta húsi við mig. Þetta sýnir í hnotskurn hvernig þetta er, það er víða blómlegur sjávarútvegur og fiskvinnsla um landið, en öryggi er ekki meira en þetta. Þessi hópur bætist að stórum hluta á atvinnuleysiskrá núna, en einhverjir þeirra fá vinnu við að rífa niður tækin, og um 40 starfsmenn fara til Grindavíkur til að vinna hjá Vísi þar. Það er mikil eftirsjá eftir þessu öllum saman,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson. 

(Kvótinn.is, lykilsíða sjávarútvegsins tók þetta viðtal við formann Framsýnar þann 1. maí, það er á baráttudegi verkafólks)

Aðalsteinn Á Baldursson kemur víða við í viðtali sem vefurinnn kvotinn.is tók við hann á 1. maí.