Orð skulu standa Vísismenn!!

Málefni starfsmanna Vísis hf. á Húsavík voru til umræðu á stjórnarfundi Framsýnar í gærkvöldi. Samþykkt var að álykta um stöðu mála en flest bendir til þess að fyrirtækið loki starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík um næstu mánaðamót með tilheyrandi afleiðingum fyrir starfsmenn og samfélagið við Skjálfanda. Sjá ályktun:

 

Ályktun
um áform Vísis að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík 

„Framsýn, stéttarfélag ítrekar kröfu félagsins um að Vísir hf. hætti þegar í stað við áform um að leggja niður rekstur fyrirtækisins á Húsavík um næstu mánaðamót. 

Gangi áformin eftir verður það reiðarslag fyrir starfsmenn, sveitarfélagið og atvinnulífið á svæðinu. Þá er rétt að minna á yfirlýsingar Vísis hf. um uppbyggingu á Húsavík þegar þeir eignuðust Fiskiðjusamlag Húsavíkur á sínum tíma. Orð skulu standa, Vísismenn!! 

Jafnframt hlýtur að teljast eðlilegt, láti fyrirtækið ekki af þessum áformum, að aðilum í útgerð og fiskvinnslu á Húsavík verði boðið að kaupa þann kvóta sem Vísir eignaðist á sínum tíma við kaupin á Fiskiðjusamlagi Húsavíkur.

Þessar staðreyndir ættu jafnframt að vera stjórnvöldum áminning um að gera viðeigandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og koma þannig í veg fyrir  að einstaka útgerðir geti rústað heilu byggðalögunum með því færa kvótann milli byggðalaga.

Framsýn, stéttarfélag kallar eftir samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja í sjávarútvegi. „

Eftir stjórnarfund Framsýnar í gærkvöldi beið hópur starfsmanna frá Vísi hf. eftir samtali við formann Framsýnar enda hafa þeir miklar áhyggjur af sinni stöðu. Fundurinn með starfsmönnum stóð vel fram eftir kvöldi í gær. Myndin hér að ofan er frá fyrri fundinum með starfsmönnum Vísis sem fram fór á vegum Framsýnar í kjölfar ákvörðunr Vísis að loka starfstöð fyrirtækisns á Húsavík 1. maí.