Starfsmenn skora á Vísi að halda vinnslu áfram á Húsavík

Nánast allir starfsmenn Vísis, eða um 50 manns, komu á fund sem Framsýn stóð fyrir í kvöld vegna ákvörðunar fyrirtækisins að hætta starfsemi á Húsavík 1. maí. Fundarmenn samþykktu að senda frá sér yfirlýsingu sem er meðfylgjandi þessari frétt þar sem skorað er á forsvarsmenn fyrirtækisins að hætta við áformin. Ljóst er að starfsmönnum er verulega brugðið og líður flestum þeirra mjög illa, ekki síst vegna óvissunnar sem komin er upp. Engin þeirra reiknaði með að til stæði að loka fyrirtækinu enda ný búið að fjárfesta í nýjum og fullkomnum flæðilínum. Í máli þeirra flestra kom fram að þeim hefur líkað vel að búa á Húsavík og hafa flestir þeirra komið sér vel fyrir, jafnvel fjárfest í húsnæði. Í óformlegri könnun sem gerð var á fundinum kom fram að flestir þeirra vilja búa áfram á Húsavík enda bjóðist störf við þeirra hæfi. 

Yfirlýsing
vegna áforma Vísis hf. um að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík 

„Fundur haldinn á vegum Framsýnar stéttarfélags með starfsmönnum Vísis hf. á Húsavík 31. mars 2014 skorar á forsvarsmenn fyrirtækisins að halda áfram öflugri fiskvinnslu á Húsavík í stað þess að leggja hana niður 1. maí 2014 eins og áformað er.“

Starfsmenn voru ánægðir með fundinn og þökkuðu Framsýn fyrir að standa fyrir honum. Í máli formanns kom fram að félagið mun gera allt til að verja réttindi félagsmanna sem starfa hjá fyrirtækinu.

Fjölmargar spurningar komu fram um réttindi og stöðu starfsmanna sem formaður Framsýnar leitaðist við að svara.

Fulltrúar frá Vinnumálastofnun voru á fundinum og gerðu starfsmönnum grein fyrir réttindum þeirra varðandi atvinnuleysisbætur.

Það er alveg ljóst að starfsmenn trúa ekki öðru en að forsvarsmenn Vísis endurskoði áformin og haldi rekstri áfram á Húsavík og standi við yfirlýsingar sem þeir gáfu þegar þeir eignuðust fyrirtækið á sínum tíma.