Lífvörðurinn og Brúnó

Það vakti athygli er formaður Framsýnar fór um héruð í vikunni og heimsótti vinnustaði í Norður-Þingeyjarsýslu að með í för var fjallmyndarlegur ungur maður, Einar Magnús Einarsson. Höfðu menn á orði hvort formaðurinn væri kominn með lífvörð eftir öll átökin síðustu mánuði í verkalýðshreyfingunni. Svo er ekki, enda þarf formaðurinn ekki lífvörð í heimabyggð. Spurning um ófriðarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu og víðar út um land. Það rétta er að Einar Magnús er í trúnaðarmannaráði Framsýnar og kom með í ferðina til að fræðast um starfið og starfsemina á  félagssvæðinu. Á næsta aðalfundi félagsins mun svo Einar Magnús, sem er áhugamaður um verkalýðsmál, setjast í varastjórn Framsýnar.

Einar Magnús og Brúnó starfa báðir í Silfurstjörnunni, Maggi í fiskeldinu og Brúnó sem er ættaður frá Raufarhöfn sér um að halda músum frá því að gera mönnum lífið leitt á vinnustaðnum.  Til viðbótar má geta þess að Maggi tók þær myndir sem hafa verið með fréttum af vinnustaðaheimsóknum formanns  Framsýnar síðustu daga.

Brúnó er góður lífvörður. Hann tók passaði töskuna fyrir formann Framsýnar meðan hann malaði yfir starfsmönnum Silfurstjörnunnar.