Formaður fékk faðmlag og koss

Formaður Framsýnar var óvæntur gestur á stórum vinnustað í Reykjavík í vikunni. Starfsmenn fyrirtækisins þökkuðu honum fyrir baráttu hans fyrir bættum kjörum verkafólks og  framkomu hans í fjölmiðlum undanfarið í þágu verkafólks.

Í máli þeirra kom einnig fram, að sem betur fer, hefðu síðustu kjarasamningar verið kolfelldir þrátt fyrir áróður ákveðinna verkalýðsforingja sem töluðu ekki í takt við félagsmenn og skoruðu á þá að samþykkja samningana. Forsvarsmaður starfsmanna sá ástæðu til að faðma formanninn og kyssa hann á kinnina fyrir hans ómetanlegu störf. Að sjálfsögðu þakkaði formaðurinn fyrir sig. Hann væri í raun hrærður yfir þeim kveðjum sem honum hefði borist og meðtekið undanfarið frá fjölmörgum aðilum sem séð hefðu ástæðu til að taka undir hans málsstað og baráttu fyrir hækkun lægstu launa. Á sama tíma væri ákveðin forystusveit innan verkalýðshreyfingarinnar sem inni markvist að því að sundra verkalýðshreyfingunni með innihaldslausum málflutningi og  lélegum kjarasamningum.

Aðalsteinn var gestur á fjölmennum vinnustað í Reykjavík þar sem kjaramál voru til umræðu. Hann fékk koss á kinn fyrir baráttuna.