Mikill hiti í fundarmönnum

Nú kl. 17:00 hófst fundur stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar sem jafnframt er samninganefnd félagsins. Til fundarins var boðað á föstudaginn í kjölfar þess að félaginu barst bréf frá formanni Starfsgreinasambandsins, Birni Snæbjörnssyni. Í bréfinu kemur fram að unnið hafi verið að því síðustu daga undir hans stjórn að félögin innan sambandsins sem felldu kjarasamninginn fari saman fyrir utan Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness. Reyndar er Verkalýðsfélagi Þórshafnar heldur ekki gefinn kostur á að vera með en formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, hefur verið ráðgjafi verkalýðsfélagsins á Þórshöfn. Til að koma í veg fyrir að hann komist að borðinu er Verkalýðsfélag Þórshafnar útilokað frá samstarfi stéttarfélaganna. Maðurinn á bak við þessa ákvörðun er Björn Snæbjörnsson.

Hiti er í fundarmönnum sem nú sitja á fundi og hlusta á formann félagsins fara yfir stöðuna í kjaramálum eftir útspil formanns SGS um að útiloka Framsýn frá samstarfi annarra stéttarfélaga innan sambandsins. Í máli Aðalsteins kom m.a. fram að það væri ömurlegt að upplifa svona vinnubrögð og alvarlegur trúnaðarbrestur væri kominn upp í sambandinu. Það væri t.d. svolítið sérstakt að upplifa það líka að formenn innan Starfsgreinasambandsins hefðu undanfarna daga beðið hann um upplýsingar um áherslur Framsýnar til lausnar kjaradeilunnar. Á sama tíma og þeir hefðu verið að undirbúa samstarf með öðrum stéttarfélögum án aðildar Framsýnar. Þetta væri undarlegt siðferði. Miðað við umræðurnar eru miklar líkur á að fundurinn standi fram eftir kvöldi.