Jóna áfram formaður DVS

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna fimmtudagskvöldið 30. janúar 2014  kl. 20:00. Hér má fræðast betur um fundinn:

 Dagskrá fundarins var svohljóðandi;

Skýrsla stjórnar.
Kosning formanns og stjórnar.
Önnur mál.
Fyrirlestur: Að láta drauminn rætast „Jakobsvegurinn í máli og myndum“ Elín K. Sigurðardóttir

Skýrsla stjórnar:
 Jóna Matthíasdóttir formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir nýliðið starfsár, sjá í viðhengi.

Kosning stjórnar:
Formann skal kjósa til tveggja ára og þar sem Jóna hefur lokið kjörtímabili sínu fór fram kosning formanns.  Tillaga var borin upp um Jónu Matthíasdóttur sem formann deildarinnar og var það samþykkt samhljóða. Kjósa skal um 2 aðalmenn í stjórn og 2 til vara. Í framboði til aðalstjórnar eru Jónína Hermannsdóttir og Birgitta Bjarney Svavarsdóttir og í framboði til varastjórnar eru Katarzyna Osipowska  og Emilía Aðalsteinsdóttir.  Aðrar tillögur bárust ekki og  var ný stjórn boðin velkomin til starfa með lófataki.  Stjórn mun funda fljótlega og skipta með sér verkum.

Önnur mál:
Í skýrslu stjórnar kom fram að í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga ( í tengslum við verkefnið „verslun í dreifbýli“ ) var fenginn utanaðkomandi aðili sem gerði úttekt í níu verslunum á Húsavík sem snýr að þjónustu og aðgengi. Verslunarstjórar fengu í kjölfarið stutta skýrslu um það sem má betur fara og eða vel er gert og fóru þegar einhverjir aðilar í úrbætur.  Þing LÍV var haldið á Akureyri í nóvember og þar var helst fjallað um starfsmenntunarmál og kjarasamning. Nýr formaður LÍV var kosinn á þinginu en það er Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.  Í kosningu kjarasamnings nú í janúar mánuði felldu félagsmenn DVS innan Framsýnar samninginn. Alls felldu fimm af tólf félögum innan LÍV samninginn. Ekki hefur enn verið boðað til fundar með formönnum þeirra félaga.  Nokkur umræða var um kjarasamninginn og úrslit kosninga í einstökum félögum, og næstu skref sem enn eru óljós. Fundarmenn eru uggandi um sinn hag. 
Þá var aðeins rætt um siðareglur félagsins og bent á nýjar reglur Starfsmenntasjóðs sem félagsmenn voru hvattir til að kynna sér og nýta sín réttindi. Fundarmenn fagna þeim kjörum sem í boði eru í orlofsmálum og lýstu yfir ánægju sinni með nýjar íbúðir í Þorrasölum.

Þá flutti Elín K. Sigurðardóttir fyrirlestur í máli og myndum af hjólaferð hennar og Guðrúnar Kristínar Svavarsdóttur um „Jakobsveginn“ sem þær fóru í september sl. Leiðin liggur um Pýrenafjöll frá landamærum Frakklands að vestasta odda Spánar og er yfir 900 km. löng.  Þær stöllur tóku þá ákvörðun tveimur árum áður, að takast á við þessa leið sem tók 14 daga.  Mjög áhugaverður og lifandi fyrirlestur sem vakti athygli og ánægju fundarmanna. Fundi var slitið kl. 21:35.

Elín er hér ásamt Guðrúnu Kristínu Svavars sem ættuð er frá Húsavík en þær fóru saman í ferðina.

Skýrsla um starfsemi 2013-2014
Jóna Matthíasdóttir formaður deildarinnar flutti skýrslu stjórnar

Kæru félagsmenn!
Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks bjóða ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Deild verslunar- og skrifstofufólks varð til þann 1. maí 2008 við sameiningu Verslunarmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis undir nafninu Framsýn- stéttarfélag.  Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Birgitta Bjarney Svavarsdóttir ritari og í varastjórn sitja Katarzyna Osipowska  og Kári Kristjánsson. Kári gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og þökkum við honum kærlega fyrir góð störf á liðnum árum.  Stjórnin hélt fjóra formlega stjórnarfundi á árinu en samkvæmt lögum félagsins er formaður deildarinnar einnig sjálfskipaður í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Það fyrirkomulag gefst vel, formaður fylgir eftir málefnum deildarinnar auk þess að eiga gott samstarf við stjórn Framsýnar. Aðrir fulltrúar deildarinnar sitja að auki í stjórnum og ráðum innan Framsýnar- stéttarfélags. Stjórn deildarinnar vill þakka fyrir gott og mikilvægt samstarf og þjónustu formanns Framsýnar og annarra starfsmanna skrifstofunnar. Formaður og varaformaður deildarinnar sóttu formannafund LÍV í september sl. þar sem helsta umræðuefni voru kjarasamningar og horfur í efnahagsmálum. Þá tók formaður þátt í landsþingi LÍV á Akureyri í nóvember sl.  Þingið fór vel fram og vinnuhópar fjölluðu um starfsmenntunarmál og að sjálfsögðu kjara- og efnahagsmál. Nýr formaður LÍV er Guðbrandur Einarsson frá Verslunarmannafélagi Suðurnesja. Jóna tók sæti í kjörnefnd LÍV til næstu tveggja ára. Þing ASÍ fór fram á Illugastöðum á haustdögum og sat formaður þingið ásamt góðum hópi úr röðum félagsmanna Framsýnar.

Félagatal
Á síðasta ári greiddu 187 manns til félagsins, þar af eru konur í miklum meirihluta eða 146 á móti 41 karlmanni.  Félagsmönnum innan deildarinnar hefur fækkað um 2% á milli ára.

Fjármál
Innkoma félags- og iðgjalda er nokkuð jöfn milli ára. Endurskoðaður ársreikningur félagsins verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni félagsins hér eftir sem hingað til. Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum, auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Nýjar reglur um innheimtu iðgjalda tóku gildi á síðasta ári.

Kjara- og samningamál
ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag um framlengingu kjarasamninga en hann rann út í lok nóvember og eins og þið vitið voru kosningar nú í janúar mánuði. Eins og félagsmönnum er kunnugt felldi okkar fólk samninginn og kom sú niðurstaða ekki á óvart. Heilt yfir var samningur aðildarfélaga LÍV samþykktur með 54,29% atkvæða á móti 43,59% sem sögðu nei. Samningurinn var felldur hjá fimm félögum af tólf úr röðum LÍV. Miklar ritdeilur stóðu yfir í aðdraganda kosninga þar sem menn fóru mikinn og þung orð látin falla. Ekki hefur enn verið boðað til fundar með þeim félögum sem felldu samninginn en við viljum hvetja félagsmenn okkar til þess að fylgjast vel með gangi mála á heimasíðu félagsins. Samningsumboð deildarinnar var  hjá Landssambandi íslenskra verslunarmanna en er nú komið heim í hérað, þar sem samningurinn var felldur hjá landssamtökum.

Orlofsmál
Orlofsmál eru mikilvæg í starfi félagsins. Gott samstarf hefur verið milli aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna í orlofsmálum. Sameiginleg orlofsnefnd félaganna vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti í orlofsmálum og má þar nefna orlofshús, gistiávísanir á Foss- og Edduhótelum, Hótel Keflavík, Hótel Kea, Hótel Norðurland, Hótel Björk, Gistihús Keflavíkur, á farfuglaheimilum, endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Mjög góð nýting er á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu og er það vel.  Ekkert punktakerfi er við lýði hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslu heldur leitast við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun. Þá má ekki gleyma þeim góða samningi sem gerður var milli Framsýnar og flugfélagsins Ernir, sem er mikil kjarabót fyrir alla félagsmenn auk þess að styrkja við flug til og frá Húsavík. Félagsmenn hafa verið duglegir að nýta sér þetta frábæra tilboð.

Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Alls fengu 24 félagsmenn starfsmenntastyrki á árinu 2013, alls að upphæð kr. 781.213-. 
Nú um áramótin tóku nýjar reglur gildi á Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks sem auka réttindi þeirra sem eru í lægri tekjuhópunum en þar hafa þeir tekjuhærri verið með mun betri réttindi hingað til.  Við þessar breytingar tvöfaldast réttindi þeirra sem eru undir meðallaunum miðað við það sem áður var en felur einnig í sér að réttindaávinnsla þeirra tekjuhærri verður hægari.  Formaður og varaformaður litu við í heimsóknir hjá fyrirtækjum á svæðinu, alltaf má gera betur og vera sýnilegri og stefnum við að því halda þessum heimsóknum áfram. Í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga tókum við þátt í verkefni sem nefnist „Verslun í dreifbýli“ en við fengum utanaðkomandi aðila til að heimsækja níu verslanir á Húsavík sem tók út aðgengi og þjónustu verslana. Í kjölfarið fengu verslunarstjórar stutta skýrslu með ábendingum um hvað má betur fara og það sem vel er gert og brugðust flestir þeirra vel við og fóru þegar í úrbætur. Framsýn gaf út kynningarmynd á síðasta ári sem tekur á sögu og starfssemi félagsins. Myndbandið var unnið að Rafnari Orra Gunnarssyni og er aðgengilegt á vef félagins.

Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Fréttabréf stéttarfélaganna er mikilvægur þáttur í starfsemi stéttarfélaganna. Fréttabréfinu er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna.  Fréttabréfinu er dreift frítt á öll heimili á félagssvæðinu og kemur út á tveggja mánaða fresti.  Heimasíða stéttarfélaganna er einnig mikið sótt enda mjög aðgengilegt form fyrir þá sem vilja kynna sér starfsemi félagsins eða réttindi. Nýjar fréttir og upplýsingar birtast þar nánast daglega.

Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 4 starfsmenn, í fullu starfi,  á skrifstofunni og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Þá má ekki gleyma góðu samstarfi við Vinnumálastofnun sem hýsir starfsmann sinn hér innandyra auk Ágústs Óskarssonar starfsmanns VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum. Á haustdögum tók til starfa ný Siðanefnd Framsýnar en öllum álitamálum er lúta að siðareglum Framsýnar er skotið til nefndarinnar. Formaður hennar er Ari Páll Pálsson. Góð nýting er hér í félagsaðstöðu okkar enda mikil starfsemi á vegum stéttarfélaganna. Auk fastra viðburða má nefna vikulegt félagskvöld Skákfélagsins Goðans sem hefur hér aðstöðu.

Lokaorð
Hér hefur verið gerð grein fyrir því helsta í starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Það er von stjórnar að skýrsla þessi gefi yfirlit yfir það helsta í starfi okkar. Stjórn vill þakka félagsmönnum, þeim sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið sem og starfsmönnum þess fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.