Framsýn fær mikið lof

„LOF fá Húsvíkingar og nærsveitungar í Framsýn fyrir að kolfella kjarasamning óhræddir við að standa uppi í hárinu á atvinnurekendum og láta ekki fara illa með sig. Svo mælir kona úr Þingeyjarsýslum sem hafði samband við blaðið.“ Þessa frétt má lesa í Akureyri vikublaði sem kom út í þessari viku.

Til viðbótar má geta þess að fjölmargir hafa sett sig í samband við félagið og þakkað fyrir ódrepandi baráttu félagsins fyrir bættum kjörum verkafólks. Þá má geta þess til viðbótar að fólk víða um land hefur óskað eftir inngöngu í félagið, það er verkafólk sem starfar utan félagssvæðis Framsýnar.

 Það er mat margra að Framsýn hafi vísað veginn þegar kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands var felldur. Þess ber þó að geta að nokkur öflug stéttarfélög innan SGS skrifuðu ekki undir kjarasamninginn vegna andstöðu við hann og eiga heiður skilið fyrir það.