Þræla kynslóðin

Síðustu misseri hefur mönnum orðið tíðrætt um allskonar kynslóðir enda þörfin til að flokka allan andskotann sterk í okkur mannfólkinu. Einstaklingar af týndu kynslóðinni eru nú flestir komnir undir græna torfu og þeir sem tilheyra barnabombu kynslóðinni sem fæddist eftir seinni heimstyrjöldina eru óðum að missa völdin og tínast inn á elliheimili. Á meðan er X-kynslóðin sem fæddist milli 1960-80 óðum að taka við sem leiðandi afl í samfélaginu og  siðblinda hluta hennar, sjálfhverfu kynslóðinni, er kennt um allt sem miður hefur farið á síðustu árum. Aldamótabörnin (90´s kids) eru ennþá blaut á bak við eyrun og eru ásamt i-kynslóðinni límd við snjallsímana sína og skipta sér lítið af því sem gerist utan hans. 

Eitt eiga samt allar þessa kynslóðir sameiginlegt; þær eru að breytast í hóp fólks sem getur ekki dregið fram lífið nema með því að þræla myrkranna á milli fyrir lúsarlaun sem rétt duga fyrir nauðþurftum og þeir sem detta út af vinnumarkaði þurfa að búa við það að vera í hálfgerðu stofufangelsi og jafnvel tjóðraðir niður í rúm sín eins og dýr í stað þess að fá viðeigandi meðferð. Allt vegna þess eins að yfirvaldið segir að ekki sé nóg til skiptanna í samfélaginu.
Ég þarf ekki að segja ykkur að ástandið er slæmt. Allir vita að ástandið er slæmt. Fólk er hrætt við að missa vinnuna, krónan verðlaus, fyrirtæki að fara á hausinn og hagsýnu húsmæðurnar sjá skuldastöðuna versna um hver mánaðarmót. Allt virðist vera á móti okkur, bankar hækka vexti,  verslanir hækka verð sín, sveitarfélög hækka gjaldskrár og ríkið hefur það að yfirlýstu markmiði að rýra verðgildi launa okkar um 2,5% á ári, hefur reyndar gert gott betur en það, því meðal verðbólga síðustu 5 ár hefur verið 7,2%.

Ekki er nóg með það að atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög stefni ötullega í átt að því að gera okkur að sínum þrælum, heldur  virðist svo vera sem bróðurparturinn af verkalýðsforustunni í landinu hafi snúist á sveif með þeim og hvetji nú sína félagsmenn til að samþykkja nýjan kjarasamning sem undirritaður var á einum dimmasta degi ársins. Sá samningur kveður á um að fyrir fulla dagvinnu skuli verkamaður fá laun sem duga fyrir um ¾ af dæmigerðum útgjöldum heimilislauss einstaklings sé miðað við tölur frá Velferðarráðuneytinu.  Vilji hann svo eiga þak yfir höfuðið og fyrir restinni af útgjöldunum þarf hann bara að þræla sér út í aukavinnu meðan hann hefur heilsu til, en öryrkinn og ellilífeyrisþeginn geta lítið annað gert en að strekkja sultarólina í botn.

Það er löngu orðið tímabært að grípa til aðgerða og gefa spilin uppá nýtt. Við erum svo heppin að búa í góðu landi sem getur séð öllum fyrir farborða, tökum samfélagslega ábyrgð og segjum nei við því að verða næsta þræla kynslóð og höfnum samningunum.

Verkamaður í Norðurþingi

Þessi fígúra hefur fylgt greinarhöfundi lengi til að minna hann á stöðu verkamanna!