Um þúsund manns á kjörskrá – 25% erlendir starfsmenn

Um þessar mundir standa yfir kynningar á nýgerðum kjarasamningum. Um er að ræða þrjá kjarasamninga á félagssvæði stéttarfélaganna á Húsavík. Það er um almenna kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins sem flestir félagsmanna Framsýnar starfa eftir, kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna verslunar- og skrifstofufólks og kjarasamning Þingiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

Á kjörskrá vegna kjarasamnings Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins á almenna vinnumarkaðinum eru 823 félagsmenn. Það sem vekur athygli er að um 25% þeirra sem eru á kjörskrá eru erlendir starfsmenn eða um 200 félagsmenn. Eftir þessum kjarasamningi starfa s.s. fiskvinnslufólk, starfsfólk við kjötvinnslu, ferðaþjónustu, bílstjórar, ræstingarfólk og almenna þjónustu.

Á kjörskrá vegna kjarasamnings Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna verslunar- og skrifstofufólks eru 111 félagsmenn.

Á kjörskrá vegna kjarasamnings Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og Samtaka atvinnulífsins eru 63 félagsmenn.

Rétt er að hvetja félagsmenn til að taka þátt í yfirstandandi kosningu um kjarasamningana.  Hægt er að kjósa á kynningarfundum sem nú standa yfir og á Skrifstofu stéttarfélaganna á opnunartíma skrifstofunnar.  Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna tilbúnir að koma í vinnustaðaheimsóknir og kynna samningana.

Rúmlega 200 erlendir starfsmenn eru á kjörskrá Framsýnar vegna kjarasamningana sem nú eru til afgreiðslu í félaginu.