Boðskapur formanns LÍV

Um leið og ég óska Guðbrandi Einarssyni til hamingju með formennskuna í LÍV krefst ég þess, sem formaður í aðildarfélagi sambandsins, að hann fari rétt með og sé ekki að slá sig til riddara á kostnað annarra. Hér er ég að vitna til greinar sem hann skrifaði fyrir helgina um kjaramál. Greinarskrifin eru honum ekki sæmandi sem formanni í LÍV. Hugsanlega er hann ekki búinn að átta sig á nýja hlutverkinu, hann er ekki lengur „bara“ formaður í stéttarfélagi. 

Guðbrandur skrifar:
Svo virðist sem allir þeir sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn (5% af hópnum) fái umfjöllun í fjölmiðlum en aðeins er rætt við Gylfa Arnbjörnsson þegar kemur að því að lýsa viðhorfum þeirra 95% sem standa á bak við kjarasamninginn. Allir í þessum 5% hópi lýsa yfir mikilli óánægju með gerðan samning og m.a haft eftir Arnari Hjaltalín, formanni Drífanda í Vestmannaeyjum á visi.is, „að launahækkanir samkvæmt samningnum skiptist óréttlátt niður. Þeir sem hafa lægst laun fái fæstar krónur en þeir sem hafa mest fyrir fái mestu hækkanirnar.“ Þetta er auðvitað bara rangt. Þeir sem lægstu hafa launin fá 9.750 kr. skv samningi en almenna hækkun tryggir a.m.k 8.000 kr. 

Svar:
Takið eftir, Guðbrandur skrifar, þetta er auðvitað rangt. Síðan bætir hann við: Það er hins vegar rétt að hrein prósentuhækkun tryggir fleiri krónur eftir því sem laun eru hærri…….. 

Ha! Var ekki Guðbrandur að tala um að fullyrðingar Arnars og félaga um að þeir lægst launuðu fengju færri krónur í vasann en þeir tekju hærri væru rangar?  Samt sem áður skrifar hann í næstu setningu að hrein prósentuhækkun tryggi þeim tekju hærri fleiri krónur….

 Já hérna svo ekki sé meira sagt. Þetta er stórfurðulegur málflutningur svo ekki sé meira sagt.

Guðbrandur skrifar:
Ef að kröfur þeirra sem nú tala hæst gegn þessum samningi hefðu orðið að veruleika hefðu laun þeirra sem hærri launin hækkað margfalt á við það sem samið var um.
Þeir kröfðust 7% almennrar hækkunar en við sömdum um 2,8%. Þetta hefði þýtt að 500.000 kr. laun hefðu hækkað um 35.000 kr. en ekki 14.000 kr. og 1.000.000. kr. laun hefðu hækkað um 70.000 kr. en ekki 28.000 kr. eins og gerist í samningnum sem nú hefur verið undirritaður.

Svar:
Það er sorglegt að formaður LÍV og miðstjórnarmaðurinn í ASÍ sé ekki betur að sér í málefnum verkalýðshreyfingarinnar en þetta. Hann byrjar með sama ruglið og forseti ASÍ gerði í umræðunni á dögunum. Starfsgreinasambandið semur aðeins fyrir félagsmenn sambandsins sem eru á launatöxtum á bilinu 192.000 til 228.000. Starfsgreinasambandið hefur ekki samningsumboð fyrir aðra og því er útreikningur formannsins með ólíkindum. Þetta veit Guðbrandur Einarsson og á því ekki að halda öðru fram.

Guðbrandur skrifar:
Það var einnig reynt að hafa áhrif á stjórnvöld vegna þeirra skattabreytinga sem taka gildi nú um áramótin með því að leggja fram óskir um hækkun á persónuafslætti en það gekk því miður ekki eftir. Hins vegar náðist í gegn hækkun á lægsta skattþrep sem kemur mörgum hinna lægri launuðu til góða.

Svar:
Guðbrandur hefði betur staðið með okkur sem barist hafa fyrir því að tekjulægsta fólkið fengi skattalækkanir eins og aðrir, ekki síst fólkið í stórmörkuðunum sem Guðbrandur og félagar skyldu eftir. Því miður var Guðbrandur ekki maður til þess að standa með okkur og því fór sem fór og hann skrifaði upp á það.

Guðbrandur skrifar:
Margir þeirra sem nú láta hátt saka forystu ASÍ um linkind og klifar formaður Verkalýðfélagsins á Akranesi í sífellu á að hann hefði viljað átök og fær bloggheima og fjölmiðla í lið með sér án nokkurra athugasemda. Sjávarútvegurinn sé að skila 80 milljörðum í hagnað og hægt hefði verið að sækja hærri launabætur fyrir fiskvinnslufólkið segir hann.
Hann er með öðrum orðum að segja það að verslunar- og skrifstofufólk eigi að fara í átök til þess að tryggja fiskvinnslufólki meiri launabætur en það fær sjálft.

Svar:
Guðbrandur, hvað ert þú að fara? „Verslunar- og skrifstofufólk eigi að fara í átök til þess að tryggja fiskvinnslufólki meiri launabætur en það fær sjálft.“ Þvílík vitleysa. Verslunar- og skrifstofufólk er ekki innan Starfsgreinasambandsins og eiga því ekki aðild að þeim kjarasamningi sem sambandið gekk frá 21. desember. Þau eru því ekki þátttakendur í kjarabaráttu félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands og fara því ekki í verkfall fyrir félagsmenn SGS.

Guðbrandur skrifar:
Það er auðvitað merkilegt að ýmsir aðilar skuli nánast einoka fjölmiðla með gagnrýni á þá sem með viðleitni sinni eru að reyna að koma hér á stöðu þar sem einstaklingur getur gengið að því sem vísu að lánið hans verði á morgun á svipuðum stað og það var í gær.

Ef að við ætlum að ná einhverjum árangri við endurreisn þessa samfélags okkar og koma okkur á þann stað þar sem við viljum vera, þá þarf að fletta ofan af þessari orðræðu sem ég vil leyfa mér að kalla lýðskrum. Þessir aðilar hafa ekkert betra að bjóða nema síður sé. 

Svar:
Æ,æ, sorglegt. Fjölmiðlar nenna ekki að fjalla um metnaðarlausan málflutning elítunnar. Það er sjálfssagt rétt hjá formanni LÍV að þetta eru lýðskrumarar. Fyrir hverju hafa þessir formenn barist:

Formenn sem barist hafa fyrir því að jafna lífeyrisréttindi landsmanna.
Formenn sem barist hafa fyrir því að skattalækkanir ríkistjórnarinnar næðu ekki bara til millitekjufólks og hátekjufólks heldur einnig til lágtekjufólks.
Formenn sem barist hafa fyrir því að lægstu mánaðarlaun á Íslandi verði ekki lægri en kr. 225.000. Það er lágmarkstekjur fyrir fullt starf á mánuði.
Formenn sem barist hafa gegn ójöfnuði og vaxandi fátækt á Íslandi. Sem birtist meðal annars í því að fólk hefur ekki lengur efni á því að sækja sér læknisþjónustu, versla í matinn eða kosta börnin sín í framhaldsnám. 

Þá átt greinilega ekki samleið með þessum lýðskrumurum en nokkrir kjörnir fulltrúar í miðstjórn ASÍ hafa notað þetta orð í veikum málflutningi í gegnum tíðina. Endilega haldið áfram að kalla ykkar „félaga“ lýðsskrumara þar sem það er svo málefnalegt af ykkar hálfu, ekki síst ykkar sem gegnið trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna eins og formennsku í LÍV.

 Guðbrandur skrifar:
Með þessum samningi er verið á skuldbinda ríki, sveitarfélög og vinnuveitendur til þess að tryggja að verðlagsbreytingar verði ekki meiri en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2.5%. Með því sláum við nokkrar flugur í einu höggi, aukum kaupmátt, tryggjum stöðugt verðlag og komum í veg fyrir miklar hækkanir á skuldum heimilanna. 

Svar:
Skemmtileg framsetning hjá Guðbrandi ekki síst í ljósi þess að Alþýðusambandið og Starfsgreinasambandið hafa mótmælt hækkunum sem fram hafa komið eftir undirritun samningsins þrátt fyrir loforð ríkistjórnarinnar um annað. Væntanlega hefur Guðbrandur ekki verið komin heim til Keflavíkur eftir vöffluátið þegar þessar hækkanir voru fram bornar fyrir alþýðuna sem af ábyrgð á að samþykkja kjarasamninginn þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda. 

Er óeðlilegt að krefjast þess af formanni Landssambands íslenskra verslunarmanna að hann taki upp málefnalegi málflutning? 

Aðalsteinn Á. Baldursson