Stjórn Þingiðnar kom saman til fundar í gær. Á fundinum var farið yfir nýgerðan kjarasamning og fyrirkomulag varðandi atkvæðagreiðslu um samninginn. Á fundinum kom fram megn óánægja með kjarasamninginn og voru þung orð látin falla um niðurstöðuna. Það má með sanni segja að það hafi verið jarðarfararsvipur á fundarmönnum þrátt fyrir að stutt væri í reiðina. Eins og fram kemur hér á heimasíðunni var ákveðið að boða til kynningarfundar á morgun um samninginn auk þess að senda út kjörgögn til félagsmanna á næstu dögum. Þá verður kjörstjórn kölluð saman í dag en til stendur að atkvæðagreiðslan standi yfir næstu daga til 20 janúar.