Vill skattalækkanir fyrir þá tekjulægstu

Viðræður Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina um breytingar á skattkerfinu eru á rangri leið segir formaður stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík. Aukna áherslu þurfi að leggja á skattalækkanir fyrir lægstu tekjuhópana. 

Viðræður um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru komnar í fullan gang milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins en samhliða er ASÍ að ræða við ríkisstjórnina um breytingar á skattkerfinu. Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík gagnrýnir áform yfirvalda um skattkerfisbreytingar sem henti þeim tekjuhærri. 

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar: Því miður er það svipað með ASÍ að, þeir fara aðra leið reyndar, og hérna, en byrja samt á því að útiloka þá sem eru með innan við 250 þúsund krónur á mánuði í að fá skattalækkanir og það geri ég alvarlegar athugasemdir við og skil ekki að ASÍ skuli fara fram með slíkar tillögur, sem ná ekki til þeirra lægst launuðu.  

Aðalsteinn hafnar því að ágreiningur sé um þessa stefnu innan Starfsgreinasambandsins og minnir á nýlega samþykkt landsþings um að stefna eigi að sérstökum skattahækkunum fyrir þá lægst launuðu.  

Aðalsteinn Baldursson: Það er í sjálfu sér ekki ágreiningur um það innan Starfsgreinasambandsins en, en það er greinilegt að öfl innan Alþýðusambandsins horfa ekki á þessa leið. 

(Þessi frétt er tekin af ruv.is en þetta viðtal við Aðalstein var í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 27. nóvember.)

Formaður Framsýnar hefur tjáð sig töluvert um kjaramál að undanförnu og verið þó nokkuð í fréttum síðustu vikurnar.