Íslenskt launafólk verður ekki eitt gert ábyrgt fyrir því að koma á stöðugleika, segir í kjaramálaályktun 28. Þings Landssambands ísl. verzlunarmanna sem haldið var á Akureyri dagana 8. og 9. nóvember. Kjaramálin og starfsmenntamálin voru helstu mál þingsins. Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, var kosinn nýr formaður sambandsins.
Staða kjarasamninga setti svip sinn umræðurnar á þinginu og samþykktu þingfulltrúar ályktun þar sem tekið er undir hugmyndir um stuttan samning, í ljósi þeirrar efnahagslegu óvissu sem nú ríkir. En í ályktuninni er ítrekað að stöðugleika á ekki að ná fram á kostnað launafólks. Ályktunin er birt í heild sinni hér að neðan.
Íslenskt launafólk vill stöðugleika
– Kjaramálaályktun lögð fram á 28. þingi LÍV 8. – 9. nóvember 2013
Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir í íslensku efnahagslífi telur þing LÍV ráðlegt að gera kjarasamning til skemmri tíma. Þingið tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið innan verkalýðshreyfingarinnar, að gerður verði kjarasamningur til skemmri tíma og í kjölfarið verði unnið að því að koma hér á stöðugleika, sem kjarasamningur til lengri tíma getur byggt á.
Kannanir sem gerðar hafa verið meðal verslunar- og skrifstofufólks sýna að meirihluti þeirra leggur áherslu á aukinn kaupmátt og hækkun lægstu launa. Takist að koma á stöðugleika má ná markmiðum um aukinn kaupmátt með minni launabreytingum.
En stöðugleika verður ekki náð á Íslandi með því að launþegar stilli kröfum sínum í hóf. Fleira þarf að koma til. Stjórnvöld verða að leggja fram trúverðuga efnahagsstefnu sem tryggir stöðugt gengi og verðlag. Þá hafa verðlagshækkanir sem átt hafa sér stað að undanförnu aukið á óstöðugleika og þær hækkanir sem lesa má út úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga vegna ársins 2014, vekja ekki vonir um að vilji sé til þess að koma á stöðugleika. Þessar hækkanir eru ögrun við íslenskt launafólk sem hefur tekið á sig ómældar byrðar frá efnahagshruninu 2008.
Eigi árangur að nást í að koma á stöðugleika sem leggur grunn að aukinni hagsæld verða allir að róa í sömu átt. Atvinnulíf og stjórnvöld verða að leggja sitt að mörkum. Íslenskt launafólk verður ekki eitt gert ábyrgt fyrir því að koma á stöðugleika.
Auk kjaramála var áhersla lögð á umfjöllun starfsmenntamála á þinginu. Í ályktun þingsins voru áhersluatrið kröfugerðar LÍV áréttuð. Ályktunin er birt í heild sinni hér að neðan.
Tryggjum starfsmenntamálum framgang í kjarasamningum
–Ályktun um starfsmenntamál lögð fram á 28. þingi LÍV 8.-9. nóvember 2013
Landssamband íslenzkra verzlunarmanna vill auka virðingu fyrir verslunar- og þjónustustörfum og tryggja að ungt fólk líti á störf í þessum greinum sem vænlegan kost til framtíðar. LÍV vill gera nám á þessum vettvangi áhugavert og fyrirtæki í verslun og þjónustu eftirsóknaverða vinnustaði. Til þess þarf að tryggja að sú aukna fagmennska og þekking sem fæst með meiri og skilvirkari menntun í faginu skili sér í hærri launum.
Þing LÍV 2013 hvetur atvinnulífið til að sýna í verki vilja sinn til að efla menntun starfsmanna í verslun og þjónustu með því að taka undir kröfur LÍV í starfsmenntamálum eins og þær eru settar fram í kröfugerð sambandsins. Í kröfugerðinni er áhersla lögð á að starfsmenntun verslunar- og þjónustufólks sé markviss, í takt við þarfir atvinnulífsins og metin til launa.
LÍV gerir þá kröfu að þessum málaflokki verði gert hátt undir höfði í næstu kjarasamningum og að atvinnurekendur og launafólk sameinist um bókun þar að lútandi sem feli í sér eftirtalin áhersluatriði kröfugerðar sambandsins:
- Fulltrúar vinnumarkaðarins, í samstarfi við menntayfirvöld í landinu, sammælist um að ljúka vinnu við að skilgreina starfsmenntun fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum með námslokum sem verða metin til launa.
Besta leiðin til að efla starfsfólk í þessum greinum er að nám í viðkomandi greinum leiði til sérhæfs prófs og viðurkenningar af svipuðum toga og iðnmenntun. - Í boði verði samfellt nám á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum.
Heildstætt nám innan hins hefðbundna skólakerfis tryggir betur möguleika launafólks og að námið uppfylli þær kröfur sem atvinnulífið gerir. - Áhersla verði lögð á að launafólk með stutta formlega skólagöngu fái tækifæri til þess að fá reynslu sína metna í raunfærnimati.
Mikilvægt er að starfsfólk í verslun og þjónustu, sem býr yfir sérhæfri kunnáttu á sínu sviði, fái hana metna bæði til framgangs í starfi og til náms.
Aukin menntun starfsfólks leiðir til aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og bættra lífsgæða starfsmanna. Það er allra hagur.
Nýr formaður tekur við
Á þinginu var kosið til formanns og stjórnar. Tveir voru í framboði til formanns, Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, og Helga Ingólfsdóttir, stjórnarmaður í VR. Guðbrandur fékk 82% greiddra atkvæða í atkvæðagreiðslu meðal þingfulltrúa en Helga fékk 18%. Guðbrandur tók við af Úlfhildi Rögnvaldsdóttur sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi formennsku.
Einn listi var í framboði til stjórnar og voru eftirtalin kosin:
Ólafía B. Rafnsdóttir, Páll Örn Líndal, Kristín María Björnsdóttir, Benóný Valur Jakobsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir og Gils Einarsson.
Í varastjórn eru Eiður Stefánsson, Jóhanna Rúnarsdóttir, Hjörtur Geirmundsson, Þórhildur Karlsdóttir, Óskar Kristjánsson, Júnía Þorkelsdóttir og Valur M. Valtýsson.
Á þinginu fékk Stefanía Magnúsdóttir afhent gullmerki LÍV fyrir góða og dygga þjónustu í þágu Landssambands ísl. verzlunarmanna síðustu áratugi.
Framsýn átti rétt á einum fulltrúa á þinginu. Fulltrúi félagsins var formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, Jóna Matthíasdóttir. Að sögn var hún ánægð með þingið.