Ályktað um kjaramál – reiði meðal félagsmanna

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar ályktaði í kvöld um kjaramál þar sem alvarlegar athugsemdir eru gerðar m.a. við málflutning Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankastjóra varðandi körfur verkafólks í landinu um hækkun lægstu launa. Ályktunin er svohljóðandi: 

Ályktun
Um kjaramál 

Framsýn, stéttarfélag styður kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands þar sem sérstök áhersla er lögð á hækkun lægstu launa um kr. 20.000,- á mánuði í skammtímasamningi. Verði krafan samþykkt af Samtökum atvinnulífsins tekst loksins að lyfta verkafólki upp fyrir kr. 200.000,- sem er löngu tímabært en lægstu launin í dag eru kr. 191.752,- á mánuði.

Samkvæmt ályktun 4. þings Starfsgreinasambands Íslands er verkafólk tilbúið að berjast fyrir þessari kröfu en þar segir: Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!“

Framsýn skorar á Seðlabankastjóra, forsvarsmenn atvinnulífsins og þá sem talað hafa gegn þessum hógværu kröfum Starfsgreinasambandsins að gefa þann hluta af launum sínum sem er umfram kr. 191.752,- á mánuði til góðgerðamála fyrir jólin. Þannig geta þeir slegið tvær flugur í einu höggi, látið gott af sér leiða til fjölskyldna sem eiga í miklum fjárhagslegum vanda auk þess að kynnast því hvernig það er fyrir verkafólk að búa við það hlutskipti að ná ekki endum saman svo mánuðum og árum skiptir á lægstu kauptöxtum. Menn þurfa nefnilega að lifa í raunveruleikanum til að geta áttað sig á stöðunni. 

Raunveruleikinn snýst ekki um exel skjal á borði Seðlabankastjóra, Samtaka atvinnulífsins eða greiningadeilda bankanna. Raunveruleikinn snýst um fólk sem þrátt fyrir að vinna fulla vinnu, yfirvinnu og aðra aukavinnu nær ekki endum saman.  Íslenskt verkafólk er ekki tilbúið í enn eitt „Vopnahléið“ meðan aðrir skammta sér vel á diskana og ætla þeim sem minnst hafa að hirða upp brauðmolana. Sá tími er löngu liðinn.