Í dag gekk Verkalýðsfélag Þórshafnar frá viðræðuáætlun við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjaraviðræðna um sérkjarasamning fyrir starfsmenn loðnubræðslunnar á Þórshöfn sem er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja. Starfsmenn bræðslunnar munu funda á morgun og móta kröfugerð sem lögð verður fyrir Samtök atvinnulífsins í byrjun nóvember. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, hefur verið beðinn um að aðstoða starfsmennina við mótun kröfugerðarinnar jafnframt því að taka þátt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan sérkjarasamning.