Samningur um kísilver á Bakka undirritaður

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði í gær fyrir hönd íslenska ríkisins fjárfestingarsamning við þýska félagið PCC vegna byggingar og reksturs kísilvers á Bakka við Húsavík.

Þetta tilkynnti Ragnheiður Elín á Alþingi í kvöld. Hún sagði undirritunina stóran þátt í undirbúningi verkefnisins en með samningnum eru þeir þættir sem snúa að ríkisvaldinu gagnvart verkefninu frágengnir.

„Þetta eru góð tíðindi og vonandi upptakturinn að frekari uppbyggingu í atvinnulífinu á Íslandi,“ sagði Ragnheiður Elín. Hún tók þó fram að endanleg ákvörðun um uppbyggingu á Bakka hafi enn ekki verið tekin.

120 störf í fyrsta áfanga

Stefnt er að því að PCC hefji framleiðslu kísilmálms á árinu 2016 og er reiknað með að framleiðslugeta verksmiðjunnar verði 33 þúsund tonn af kísilmálmi á ári með möguleika á stækkun upp í 66 þúsund tonna árlega framleiðslu þegar aðstæður leyfa.

Gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði til 120 bein störf við verksmiðjuna en með stækkun bætist við 40 bein störf til viðbótar. Þá hefur Byggðastofnun metið afleidd störf við fyrsta áfanga um 160 og eftir stækkun um 210.

Fjárfestingasamningurinn öðlast ekki gildi fyrr en ESA hefur samþykkt hann en ráðuneytið hefur nú þegar sent hann þangað til meðferðar.

PCC SE er alþjóðleg samsteypa fyrirtækja með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi. Í ársbyrjun 2013 störfuðu um 2.200 starfsmenn hjá samsteypunni í 12 löndum. (mbl.is)