Annað tímatal hjá SA

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins létu mynda sig í bak og fyrir á dögunum þegar þeir tjáðu verkafólki þessa lands að 1 til 2% launahækkun væri í boði fyrir vinnandi stéttir landsins í komandi kjaraviðræðum. Að öðrum kosti færi allt á hliðina.

Svo var að heyra að sendiboðarnir væru verulega ánægðir með þetta kosta boð til handa lýðnum. Fulltrúarnir komu vel fyrir enda tilheyra þeir þeim hópi sem hefur fengið hvað mest til sín í launahækkunum milli ára sé tekið mið af upplýsingum sem fram komu í tekjublaði Frjálsrar verslunar í haust. Í blaðinu eru vísbendingar um að starfsfólk í fjármálageiranum, forstjórar og millistjórnendur hafi fengið verulega góðar hækkanir milli ára svo ekki sé talað um úrskurð kjararáðs til handa forstöðumönnum ríkisstofnanna sem fengu afturvirka hækkun upp á um 20%. Meðan þessir herramenn skammta sér ríflega á diskanna er verkalýðnum ætlað að þiggja brauðmolana sem falla af borði elítunnar.  

Því miður virðist það vera þannig að þegar til stendur að hækka laun þeirra lægst launuðu kalli það á uppnám og óvissu í þjóðfélaginu. Til fróðleiks má geta þess að lægstu mánaðarlaun verkafólks í dag eru kr. 191.752,-. Hækkun upp á 1% gefur þessum hópi 1917 króna hækkun á mánuði. Samkvæmt útreikningum SA eru þetta stórhættulegar hækkanir fyrir efnahagslífið.  Þeir hafa greinilega ekki skoðað ársreikninga sjávarútvegsfyrirtækja sem skilað hafa tugum milljarða í hagnað á síðustu árum eða lesið tekjublað Frjálsrar verslunar um framvindu tekna fólks milli ára.

Þá kom fram í Morgunblaðinu um helgina að stjórnarlaun í lífeyrisjóðum hafa aldri verið hærri. Fulltrúar SA bera ekki síst ábyrgð á því. Sem dæmi má nefna að á síðasta ársfundi Stapa, lífeyrisjóðs lögðu fulltrúar SA fram tillögu um hækkun stjórnarlauna upp á tugi prósenta sem var samþykkt af atvinnurekendum á fundinum. Þeir voru spurðir að því hvort þessar hækkanir endurspegluðu vilja þeirra til að hækka laun verkafólks með sambærilegum hætti í komandi kjarasamningum.

Að sjálfsögðu vafðist þeim tunga um tönn eða höfuð eins og maðurinn sagði enda glórulausar hækkanir. Það er greinilega skilningur þeirra að verkafólk eitt beri ábyrgð á stöðugleikanaum, það sé ekki þeirra að leggja sitt að mörkum, siðferðið er ekki merkilega á þeim bænum.

Málflutningur Samtaka atvinnulífsins varðandi svigrúm fyrirtækja til að hækka laun verkafólks hefur verið með miklum ólíkindum. Þegar þeir lögðu fram sínar tillögur um hækkanir á kjörum verkafólks datt mönnum helst í hug að 1. apríl væri runninn upp en svo er ekki samkvæmt dagatalinu. Þannig að þeim er fúllasta alvara, því miður fyrir verkafólk.

Aðalsteinn Á. Baldursson