Bræla á miðunum og yfirmenn í fýlu

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, svarar grein Árna Bjarnasonar formanns Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, í Morgunblaðinu í gær. Grein Árna er í síðasta laugardagsblaði Morgunblaðsins og fjallar um samkomulag Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um störf við hvalaskoðun. Hér má sjá grein Aðalsteins. 

Bræla á miðunum og yfirmenn í fýlu
Árni Bjarnason formaður FFSÍ, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, skrifaði grein í Morgunblaðið um síðustu helgi. Þar kemur hann inn á samkomulag sem Framsýn gerði á dögunum við Samtök atvinnulífsins er varðar starfsmenn við hvalaskoðun á Húsavík. Áður hafði sambandið sem Árni gegnir formennsku í ásamt VM, Félag málm- og tæknimanna, sent frá sér yfirlýsingu. Þar lýsa samtökin yfir andúð sinni á samkomulagi Framsýnar og SA um kjör starfsmanna við hvalaskoðun. Til fróðleiks má geta þess að slíkt samkomulag hefur ekki verið gert áður á Íslandi og bætir því stöðu starfsmanna verulega. 

FFSÍ og VM með lausa samninga
Miðað við yfirlýsinguna hefur samtökunum mistekist að ná fram hliðstæðu samkomulagi fyrir félagsmenn sína á hvalaskoðunarbátum. Þá hefur þeim heldur ekki gengið að endurnýja kjarasamning við LÍÚ vegna félagsmanna á fiskiskipum. Kjarasamningurinn hefur verið laus frá árinu 2010.  Það er ágætt ef samkomulag Framsýnar við SA verður til þess að samtökin vakni til lífsins og klári samningagerð við LÍÚ í stað þess að ala á tortryggni í garð annarra sem eru að vinna vinnuna sína með góðum árangri. 

Mikið réttlætismál
Með samkomulaginu við SA vildi Framsýn eyða þeim ágreiningi sem verið hefur milli félagsins og hvalaskoðunarfyrirtækjanna um réttarstöðu starfsmanna og tengingu þeirra við kjarasamninga. Samkomulagið er mjög mikið réttlætismál fyrir starfsmenn og því ber að fagna. Ekki fer vel á því að samtök sem eiga að vera í liði með Framsýn, ryðjist fram með fullyrðingar sem allar hafa síðar verið skotnar niður með rökum enda engin púðurskot í réttindabyssum Framsýnar. Reyndar er áhugavert að lesa yfirlýsingu FFSÍ og VM. Þar er mjög lítið gert úr vægi hvalaskoðunar með hroka í garð atvinnugreinarinnar auk þess sem þeir telja viðáttuvitlaust að einstök stéttarfélög á landsbyggðinni hafi samningsumboð fyrir sína félagsmenn. Slíkt eigi að heyra sögunni til svo hægt verði að ná samningum um eðlileg launakjör. Þessi yfirlýsing kemur frá samtökum sem eru samningslaus.  Það er efni í aðra grein að svara útúrsnúningum  FFSÍ og VM vegna launakjara starfsfólks við hvalaskoðun á Húsavík. Í stuttu máli taka launakjörin mið af kauptryggingu sjómanna á fiskiskipum auk þess sem samið er um ákveðnar greiðslur til viðbótar sem gengið er frá í ráðningarsamningum starfsmanna. Spurt hefur verið eftir því hvort talsmenn þessara samtaka hafi haft samband við Framsýn meðan á samningaviðræðunum stóð við SA. Því er til að svara að þeir höfðu aldrei samband hvorki á meðan viðræðum stóð eða eftir að samkomulag náðist.

 Framsýn með fullt umboð
Vegna efasemda Árna Bjarnasonar um heimild Framsýnar til að semja um kjör sjómanna við hvalaskoðun er því til að svara. Félagið er deildaskipt, innan þess er sjómannadeild sem á aðild að Sjómannasambandi Íslands. Samkvæmt lögum Framsýnar og starfsreglum deildarinnar geta hásetar, vélstjórar, stýrimenn og skipstjórar verið innan sjómannadeildarinnar. Lög Framsýnar eru samþykkt af Alþýðusambandi Íslands sem Félag málm- og tæknimanna á aðild að líkt og Framsýn. Umboð til samningagerðar fyrir sjómenn innan Framsýnar er því mjög skýrt.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                              

Áskrifendur af bréfum LÍÚ
Ég hef lengi vitað að það er mjög kært milli FFSÍ/VM og LÍÚ. Hins vegar datt mér aldrei í hug að FFSÍ hefði afrit af bréfum sem fara milli LÍÚ og annarra. Í greininni um helgina vísar Árni í einkabréf sem fór milli LÍÚ og Framsýnar þann 2. maí 2011 sem hann segist hafa undir höndum og liggi á borði FFSÍ.  Af hverju FFSÍ er með afrit af bréfinu vekur furðu og jafnframt upp spurningar. Í bréfinu hafnar LÍÚ að gera kjarasamning við Framsýn um kaup og kjör yfirmanna á fiskiskipum en áður höfðu skipstjórnarmenn á fiskiskipum sóst eftir aðgengi að félaginu. Framsýn vildi því gera samning við LÍÚ enda frjáls félagsaðild að stéttarfélögum á Íslandi. Í fyrstu tóku talsmenn LÍÚ málaleitan Framsýnar mjög vel varðandi gerð kjarasamnings en drógu hana síðan óvænt til baka og sögðust ekki tilbúnir í viðræður um kjarasamning sem ég efast um að standist lög. Okkur hjá Framsýn var strax ljóst að kippt hefði verið í spotta til að koma í veg fyrir að félagið gerði kjarasamning um störf skipstjórnarmanna. Það að FFSÍ sé með afrit af bréfi sem fór milli Framsýnar og LÍÚ skýrir málið og staðfestir enn frekar það góða samband sem er milli þessara samtaka sjómanna og útgerðarmanna. Þess vegna vekur furðu að þeir geti ekki sest niður yfir kaffibolla og jafnvel vínabrauði og klárað gerð kjarasamnings fyrir skipstjórnarmenn á fiskiskipum. Heimilislegra getur það ekki orðið. 

Aðalsteinn Á. Baldursson
Formaður Framsýnar, stéttarfélags