Amma svarar fyrir sig! Smá léttmeti fyrir helgina.

Ungur kassastarfsmaður stakk upp á því við eldri konu að hún fengi sér margnota innkaupapoka í stað plastpoka þar sem þeir væru slæmir fyrir náttúruna. Konan afsakaði sig og útskýrði „við höfðum ekki þessa grænu vakningu þegar ég var ung.“ Ungi kassastarfsmaðurinn svaraði, „Það er vandamál okkar í dag. Þín kynslóð var of kærulaus um umhverfið til að vernda náttúruna fyrir kynslóðir framtíðarinnar.“ 

Hann hafði rétt fyrir sér viðurkenndi konan. „Kynslóðin okkar hafði ekki þessa grænu vakningu á sínum tíma. Á þeim tíma skiluðum við mjólkurflöskum, gosflöskum og bjórflöskum í búðina. Búðin sendi þær aftur í verksmiðjurnar þar sem þær voru þvegnar, sótthreinsaðar og fylltar á ný svo hægt væri að nota sömu flöskurnar aftur og aftur. Svo þær voru virkilega endurnýttar. En við höfðum ekki þessa grænu vakningu í þá daga.“ 

„Matvöruverslanir settu vörurnar okkar í brúna pappírspoka sem við endurnýttum til margra hluta. Það sem helst ber að nefna, fyrir utan að hafa notað þá sem ruslapoka, var það hvernig við notuðum pappírinn utan um skólabækur til að hlífa þeim. Þetta var gert til að tryggja að almenningseign (bækurnar sem skólinn útvegaði okur) skemmdist ekki við notkun. Svo gátum við skreytt pappírinn á bókunum að vild. En þvílík synd og skömm að græna vakningin skuli ekki hafa verið hafin á þessum tíma.“ 

„Við gengum upp tröppur því við höfðum ekki rafmagnsstiga í hverju húsi. Við gengum í búðina og bröltum ekki upp í 300 hestafla tæki í hvert sinn sem við þurftum að komast 300 metra. En það er rétt hjá þér. Við höfðum ekki grænu vakninguna. Á þeim tíma þvoðum við bleiur barnanna okkar því við höfðum ekki þessar einnota. Við þurrkuðum föt á snúru, ekki á orkueyðandi maskínu sem brennir upp 220 voltum:  vind- og sólarorka virkilega þurrkaði fötin okkar í gamla daga. Krakkar fengu notuð föt af systkinum sínum, ekki alltaf splunkunýtt. En þú, ungi starfsmaður hefur rétt fyrir þér. Græna vakningin var ekki hafin á þessum tíma.“ 

„Við höfðum eitt sjónvarpstæki eða útvarp á heimilinu, ekki sjónvarp í hverju herbergi. Og sjónvarpið var með skjá á stærð við vasaklút (manstu eftir þeim?), en ekki skjá á stærð við Hafnarfjörð. Í eldhúsinu þeyttum við og hrærðum í höndunum því við höfðum engin rafmagnsknúin tæki til að gera allt fyrir okkur. Þegar við pökkuðum inn viðkvæmum sendingum notuðum við gömul dagblöð til að verja innihaldið, ekki frauðplast eða loftbólur. Á þeim tíma ræstum við ekki vél og brenndum bensíni til þess eins að slá garðinn okkar. Við nýttum vinnuna til líkamsþjálfunar svo við þyrftum ekki að fara á líkamsræktarstöð til að hlaupa á brettum sem knúin eru áfram af rafmagni. En þú hefur rétt fyrir þér, græna vakningin var ekki til þá.“ 

„Við drukkum úr krananum þegar við vorum þyrst í staðinn fyrir að nota plastglös eða flöskur af minnsta tilefni. Við fylltum gömlu pennana okkar af bleki í stað þess að kaupa nýja og við skiptum um rakvélarblöð í stað þess að henda allri rakvélinni bara af því að blöðin voru orðin bitlaus. En það var engin græn vakning.“ 

„Á þeim tíma notaði fólk almenningssamgöngur og krakkar fóru hjólandi eða gangandi í skólann í stað þess að nýta foreldra sína sem einkabílstjóra allan sólarhringinn. Við vorum með eina innstungu í hverju herbergi, ekki raðir af innstungum til að knýja áfram tugi tækja. Og við þurftum ekki tölvugræjur til að taka á móti merkjum frá gervihnöttum úti í geimi til þess að finna næstu hamborgarabúllu. En er það ekki sorglegt að unga kynslóðin skuli harma hve eyðslusamt gamla fólkið var því við efndum ekki til grænu vakningarinnar í gamla daga?“ 

Ofangreind saga er þýdd af netinu þar sem hún finnst í ótal útgáfum og eintökum – höfundur er óþekktur. (innihald.is)