Í hvaða liði er iðnaðarráðherra?

Iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, var í viðtali á Sprengisandi  á sunnudaginn. Í þættinum var m.a.  komið inn á atvinnuuppbyggingu á Bakka. Þættir úr viðtalinu voru síðan spilaðir í morgunþætti Bylgjunar í gær auk þess sem fjallað er um málið á Eyjunni. Það er afar athyglisvert að hlusta á viðtalið fyrir áhugamenn um atvinnuuppbyggingu á Bakka. Svo virðist sem ráðherrann sé ekki í takt við fyrri ríkistjórn sem vann að málinu með heimamönnum. Þá væri áhugavert að heyra skoðanir annarra ráðherra á ummælum Ragnheiðar þar sem ekki er annað vitað en að þeir ætli að standa heilshugar við bakið á þessu mikilvæga verkefni.  Ljóst er að heimamenn eru ekki sérstaklega ánægðir með útspil iðnaðarráðherra svo ekki sé meira sagt.

Ragnheiður kom sínum skoðun skýrt á framfæri varðandi uppbygginu á Bakka og sagði meðal annars að fyrrverandi ríkistjórn hefði horft of mikið á Bakka varðandi atvinnuuppbyggingu.  Hér koma ummæli sem hún lét falla í útvarpsþættinum á Bylgjunni og á Eyjunni.  

„Lög um kísilver á Bakka og uppbyggingu innviða á því svæði hefur grafið undan almennum lögum um fjárfestingar, segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra. Fjárfestar banka nú á dyr ráðherra og krefjast sömu ívilnana og þar er að finna.

Alþingi samþykkti á síðasta kjörtímabili heildstæð lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Áður fyrr tíðkaðist að gera fjárfestingasamninga um einstök verkefni sem margir hverjir hafa þótt umdeildir, en markmið nýju laganna var að allar nýfjárfestingar lytu sömu reglum, óháð iðnaði eða þjóðerni.

Undir lok kjörtímabilsins samþykkti Alþingi frumvörp fjármálaráðherra um kísilver í landi Bakka og uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi þar. Ragnheiður Elín sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að þau lög hafi grafið undan hinum almennu lögum.

Síðan gerist það sem við þekkjum að…Steingrímur J. Sigfússon [þáverandi atvinnuvegaráðherra] kemur með og fær samþykkt sérstök lög um ívilnanir varðandi Bakkaverkefnin. Það voru 3.400 milljónir úr ríkissjóði í formi vegagerðar, innviðaframkvæmda, skattaafslátta, þjálfunarstyrkja og svo framvegis […]Það sem hefur gerst er að þessi Bakkasamningur, Bakkalögin, hafa auðvitað grafið undan almennu lögunum. Við erum í dálítilli klemmu með þetta vegna þess að nú koma öll fyrirtækin og segja: „Bíddu, hér er komið nýtt gólf. Af hverju ætti ég að sækjast eftir þessu því ég veit að það er miklu meira og annað í boði“,

sagði Ragnheiður og bætti síðar við.

Þannig að það má segja að Bakkalögin hafi grafið undan almennu löggjöfinni og við þurfum að fara núna og erum með það til skoðunar hvernig við getum tryggt góða löggjöf á þessu sviði vegna þess að hvað sem mönnum finnst um ívilnanir, afslætti og einherjar sértækar aðgerðir … þá erum við að keppa um fjárfestingar, oft stórar fjárfestingar, við önnur lönd sem eru að spila innan þessa kerfis, þannig að við þurfum að gera það líka.

En núna er það þannig, að um leið og þú sækir um á grundvelli almennu laganna, þá segja þeir: „Heyrðu, síðan myndum við gjarnan vilja ræða, ég þarf þetta og þetta og þetta til viðbótar sem er sambærilegt við það sem sett var í Bakkalögunum. Er ekki jafnræðisregla hér? Get ég ekki ætlast til þess að um mig verði vélað á sama hátt og aðra? Hver er munurinn á mér og þeim?

Bæði heildstæða löggjöfin og lögin um Bakka eru nú til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Ragnheiður Elín vonast eftir niðurstöðu ESA í haust, en óttast að fleiri verkefni kunni að stöðvast þangað til.“