Mikilvægt fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu

Nú er ferðamannaiðnaðurinn í hámarki í Þingeyjarsýslum, innlendir og erlendir ferðamenn sækja okkur heim, njóta einstakrar náttúru Þingeyjarsýslna og vöru og þjónustu frá fjöldanum af frábærum þjónustuaðilum í ferðaþjónustu.

Á þessum tíma rignir inn fyrirspurnum um starfskjör og vinnuaðstæður starfsmanna í ferðaþjónustu. Á starfssvæði Framsýnar – stéttarfélags starfa nokkur hundruð félagsmenn við ferðaþjónustu á  þessum annatíma.

Því er vel við hæfi að fara yfir nokkur atriði sem skipta máli fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu.

1. Allir eiga að hafa fengið ráðningarsamning. Skýrt þarf að vera hvort starfsmaður stafi á vöktum og fái vaktavinnukaup eða í hefðbundinni dagvinnu og fái dagvinnu og yfirvinnu.
2. Ekki er hægt að ráða starfsmenn í vaktavinnu og greiða vaktaálög, nema fyrir liggi vaktatafla fyrir 4 vikur í senn, sem kveði skýrt hvenær vinna hefst og hvenær henni lýkur. Vaktatöflu þarf að leggja fyrir með viku fyrirvara. Þeir sem ekki uppfylla þetta skilyrði, ráða starfsmenn sína í hefðbundna dag- og yfirvinnu.
3. Vaktaálag er 33% virka daga kl. 17-24 og 45% kl. 00-08 virka og allar helgar. Álag á rauðum dögum er hærra.
4. Fyrir þá sem eru í vaktavinnu, greiðist dagvinna og vaktaálag fyrir vinnuskyldutíma (40 klst. að meðaltali á viku). Öll vinna umfram það er greidd með yfirvinnulaunum.
5. Ef unnið er umfram fyrirfram ákveðna vakt, greiðist yfirvinnulaun á tímabilinu 17-08 virka daga og um helgar.
6. Í vaktavinnu eru neysluhlé 5 mín. fyrir hverja klst.. Ef neysluhlé eru ekki tekin greiðist þau aukalega.
7. Laun 16 og 17 ára skulu miðast við árið.
8. 22 ára lífaldur veitir rétt til launa eftir 1 árs starfsaldur.
9. Ofan á öll laun greiðist að lágmarki 10,17% orlof. Algengast er að orlof starfsmanna sé greitt í banka.