Kjaradeilu vísað til ríkissáttasemjara

Að höfðu samráði við lögfræðing Framsýnar hefur félagið ákveðið að vísa kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík til ríkissáttasemjara þar sem viðræður hafa ekki skilað tilætluðum árangri. 

Í dag stunda þrjú fyrirtæki á Húsavík hvalaskoðun en voru tvö á árinu 2012. Á síðasta ári átti félagið í viðræðum við fyrirtækin tvö um kjarasamning fyrir starfsmenn. Eftir samræður á þeim tíma vísuðu fyrirtækin samningsumboðinu til Samtaka atvinnulífsins. Síðan þá hefur Framsýn átt í viðræðum við SA. Því miður hafa viðræðurnar ekki skilað árangri, ekki síst þar sem Samtök atvinnulífsins, hafa dregið umræðuna og ekki verið tilbúin að klára málið þrátt fyrir margítrekaðar óskir Framsýnar þess efnis. 

Málið er að störf fólks við hvalaskoðun tekur til mismunandi kjarasamninga. Svo sem til kjarasamninga sjómanna og starfsfólks í ferðaþjónustu. Reyndar má færa fyrir því rök að störf starfsmanna við hvalaskoðun nái einnig til kjarasamninga verslunar- og skrifstofufólks og starfsmanna sem starfa eftir almenna kjarasamningnum sem er milli Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins.  Þess vegna ekki síst er mikilvægt að viðsemjendur komi sér saman um eftir hvaða kjarasamningi/samningum eigi að fara varðandi starfsmenn við hvalaskoðun á Húsavík. 

Starfsmenn fyrirtækjanna á Húsavík hafa lagt að félaginu að ganga frá samningi fyrir þeirra hönd þar sem núverandi ástand samningamála sé ólíðandi með öllu. Þeir hafa lagt að félaginu að grípa til aðgerða til að knýja fram samninga. 

Það er von Framsýnar að Ríkissáttasemjari geti komið að þessari deilu með það í huga að starfmenn fái aðgengi að kjarasamningi sem taki mið af þeirra störfum. Þannig verði komið í veg fyrir frekari leiðindi.  Framsýn bindur vonir við að ríkisáttasemjari boði deiluaðila til fundar í þessari viku.