Velferðarsjóðurinn mikilvægur samfélaginu

Velferðasjóður Þingeyinga var starfræktur með sama hætti árið 2012 eins og árin á undan. Stjórn sjóðsins, var skipuð var á aðalfundi félagsins 14.febrúar 2012. Þau eru: Örnólfur Jóhannes Ólafsson sóknarprestur á Skútustöðum, Sara Hólm frá Kvennfélagasambandi Suður-Þingeyinga ritari, Meðstjórnandi Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar. Stjórnin auk annarra sem kölluð voru til, komu saman í Bjarnahúsi 26.apríl. Þar var gengið frá úthlutunarreglum og skipan úthlutunarnefndar.

Í úthlutunarnefnd sjóðsins tóku sæti: Félagsmálastjóri Norðurþings Dögg Káradóttir, sóknarpresturinn á Húsavík sr.Sighvatur Karlsson og fulltrúi Rauðakrossdeildar Húsavíkur og nágrennis Þórhildur Sigurðardóttir.
Úthlutunarnefndin kom saman á tíu fundum á árinu. Alls voru framlög til Velferðasjóðs Þingeyinga árið 2012: krónur 1.973.000- Styrkveitingar úr sjóðnum námu samtals: krónur 1.946.526-

Alls fengu 40 einstaklingar úthlutað í peningum eða matarkortum á árinu. Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem þáðu aðstoð hjá Velferðasjóðnum á árinu eru: Einhleypingar án barna eða með börn í umgengni, og svo Einstæðir foreldrar með eitt, tvö eða þrjú börn í heimili. Nokkuð var um að pör án barna, eða með eitt til fjögur börn hafi þegið aðstoð sjóðsins á árinu.

Stjórn sjóðsins kom svo aftur saman til fundar í Bjarnahúsi 21.september. Efni fundarins var „Átak í að fá fyrirtæki til að leggja sjóðnum til fé.“ Guðlaug Gísladóttir kom á fundinn okkur til ráðgjafar og gerði okkur grein fyrir, hvernig best væri að standa að fjáröfluninni. Í framhaldi var auglýsing sett í fjölmiðla á svæðinu auk Skrárinnar og Skarps, þar sem hvatt var til að leggja sjóðnum lið. Tókst sú fjársöfnun mjög vel.

Fjárhagsleg staða sjóðsins er góð í dag. Eign á bankareikningi í árslok 2012 er: krónur 2.111.463-
Umsóknum í sjóðinn fækkaði yfir sumarmánuðina en fjölgar í september og eins og undan farin ár er þörfin mest þegar nær dregur áramótum. Þegar úthlutanir úr sjóðnum árið 2012 eru skoðaðar er ljóst að þær snerta 26 börn á svæðinu.

Matarpakkar fyrir jól bárust frá Kiwanisklúbbnum Skjálfanda eins og undan farin ár og var úthlutað 33 matarkössum fyrir jólin. Saltfiskur barst frá GPG afvatnaður og pakkaður í Flóka fiskverkun og var þeim úthlutað fyrir jólin með kössunum frá Kiwanis. Öll vinna vegna sjóðsins er unnin í sjálfboðavinnu.

Aðstandendur Velferðasjóðsins þakka veittan stuðning og hlýhug til sjóðsins og benda á að hægt er að sækja um styrk úr sjóðnum á rkihusavik@simnet.is

Fyrir hönd Velferðasjóðsins Örnólfur Jóhannes Ólafsson formaður.