Heimir og Eiður heiðraðir á Sjómannadaginn

Sjómennirnir, Eiður Gunnlaugsson og Heimir Bessason voru heiðraðir í dag fyrir farsæla sjómennsku en þeir hafa stundað sjómennsku í áratugi frá Húsavík. Athöfnin fór fram á Fosshótel Húsavík þar sem Sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna fór fram. Fjölmenni var í kaffinu. Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrunina. Hér má sjá umfjöllun Aðalsteins Á. Baldurssonar um heiðursmennina sem hann flutti í dag. 

Ágæta samkoma! 

Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. 

Hefð er fyrir því hér á Húsavík að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og heiðra húsvíska sjómenn fyrir vel unnin störf. Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina undanfarin ár. 

Sjómennirnir tveir sem við ætlum að heiðra í dag eiga það sameiginlegt að hafa lengi stundað sjómennsku. Þá hafa þeir einnig verið liðtækir við uppstokkun og beitningu neðan við bakkann. 

Þeir eiga það einnig sameiginlegt að hafa gaman að því að spila bridge. Þeir hittast reglulega ásamt öðrum síungum sjómönnum sem sestir eru í helgan stein og spila bridge  í eldhúsinu hjá Eida Gils á Garðarsbrautinni. 

Heiðursmennirnir sem við ætlum að heiðra eru Eiður Gunnlaugsson og Heimir Bessason. 

Heimir Bessason:
Heimir Bessason fæddist á Dalvík 22. október 1945. Hann er sonur hjónanna, Bessa Guðlaugssonar og Maríu Guðnadóttir. 

Heimir kom siglandi til Húsavíkur í orðsins fyllstu merkingu þar sem foreldrar hans fluttu til Húsavíkur þegar hann var þriggja ára frá Dalvík. Farið var með bát frá Dalvík til Húsavíkur. 

Eiginkona Heimis er Sigríður Sigurjónsdóttir. Heimir á fjögur uppkomin börn og einn fósturson. 

Heimir byrjaði snemma að fylgja föður sínum niður á bryggju, í skúrana og út á sjó. Aðeins 8 til 9 ára gamall var hann kominn á sjó og farinn að draga handfæri með föður sínum. Á þeim tíma var allt dregið með höndunum og allir virkjaðir þrátt fyrir ungan aldur. Það urðu allir að leggja sitt af mörkum og draga björg úr sjó.  Handfærarúllurnar komu síðar til sögunnar sem reyndist töluverð tæknibylting sem Heimir kynntist ungur að árum. Þá urðu handtökin önnur og auðveldari. 

Þrátt fyrir að Heimir ætti við sjóveiki að stríða varð sjómennskan hans ævistarf enda farsæll og mikill veiðimaður sem oft hefur komið með góðan afla að landi. 

Heimir fjárfesti í sínum fyrsta bát árið 1973 sem var þriggja tonna trilla sem fékk nafnið Össur ÞH 118. Frá upphafi hefur Heimir átt nokkra báta og verið farsæll sjómaður. Nafnið Össur hefur fylgt hans útgerðarsögu þar til að hann eignaðist þann bát sem hann gerir út í dag. Hann ber nafnið Laugi ÞH 29 og er  nefndur eftir afa hans, Guðlaugi Þorleifssyni. 

Eins og fram hefur komið hefur Heimir verið með eigin smábáta útgerð, nánast sleitulaust frá árinu 1973. Hann stundaði jafnframt netaveiðar með félaga sínum Sigurði Gunnarssyni úr Hlíð í 17 vorvertíðir. 

Í gegnum tíðina hefur Heimir einnig verið á stærri vertíðarbátum. Svo sem á Helga Fló ÞH, Sigþóri ÞH og Örfirisey RE auk smærri dekkbáta sem gerðir hafa verið út frá Húsavík. Heimir hefur því kynnst allskonar veiðiskap; handfæraveiðum, línuveiðum, netaveiðum, rækjuveiðum, grásleppuveiðum  og nótaveiðum. Heimir var oftast háseti um borð í þessum bátum en hann var með „pungaprófið“ svokallaða og réttindi á vélar upp að ákveðinni stærð.  

Þá hefur Heimir í gegnum tíðina verið liðtækur og vinsæll beitningamaður enda mikil keppnismaður. Hann hefur stokkað og beitt þúsundir bjóða fyrir útgerðarmenn á Húsavík og verið m.a. landformaður sem er ákveðin virðing og ábyrgð fyrir trausta menn. 

Starfsferill Heimis, sem er en að, er orðinn langur og strangur og hans framlag til þjóðarbúsins og útgerðarsögu Húsavíkur er ómetanlegt.  Því er Heimir vel að því kominn að vera heiðraður hér í dag sem er um leið þakklætisvottur fyrir allt það sem hann hefur lagt að mörkum til samfélagsins hér á Húsavík. Heimir hafðu þakkir fyrir. 

Eiður Gunnlaugsson:
Eiður Gunnlaugsson fæddist í Baldursheimi í Mývatnssveit 8. nóvember 1936. Hann er sonur hjónanna Gunnlaugs Sigurðssonar og Karólínu Friðbjarnardóttir. Eiður á fjögur uppkominn börn. 

Eiður eða Eidi eins og hann er ávalt kallaður kom ekki siglandi til Húsavíkur líkt og Heimir heldur akandi úr Mývatnssveit árið 1943, þá ungur að árum. 

Sem unglingur fór Eidi að sækja í fjöruna, þar sem lífið var, enda snérist allt um sjósókn og vinnslu á fiski á Húsavík á þessum árum.  Eidi var ekki gamall þegar hann var farinn að stokka upp og beita bjóð hjá frænda sínum Kalla í Höfða og reyndar fleirum útgerðarmönnum sem gerðu út frá Húsavík. 

Væntanlega hefur Eidi ekki gert sér grein fyrir því á þessum árum að þetta ætti eftir að verða hans ævistarf. 

Á unglingsárum sínum fór Eidi að sækja suður á vertíðir. Þar beitti hann hjá útgerðum frá Húsavík og útgerðum suður með sjó. Eidi var eftirsóttur enda traustur og góður beitningamaður sem aldrei sló slöku við. 

Eidi kynntist einnig vel síldarárunum en hann var háseti á bátum eins og Helgu ÞH og Helga Fló ÞH sem fiskuðu vel af síld við stendur Íslands á sumrin. 

Eidi hefur að mestu verið launþegi hjá útgerðaraðilum. Þó ekki alveg, þar sem hann keypti 2,5 tonna trillu árið 1960 sem hann gerði út í átta ár ásamt bróður sínum Kala Gils, eða Karli Gunnlaugssyni. Trillan fékk nafnið Veiðibjallan ÞH 58. Gerðu þeir bræður út á sumrin en yfir vetrartímann fóru þeir bræður á stærri  báta sem gerðir voru út frá Húsavík. 

Eidi er mikill og góður verkmaður sem alla tíð hefur verið tryggur sínum vinnuveitendum. Það sést best á því að hann var í ráðningarsambandi við útgerðarfyrirtækið Vísir á Húsavík í samfellt 25 ár. Hann var á bátum fyrirtækisins Svani ÞH og Sigþóri ÞH auk þess að beita í landi þegar þess þurfti með. Eidi var með svokallað „pungapróf“ sem veitti honum ákveðin réttindi til að stjórna bátum upp að ákveðinni stærð. Hann leysti því stundum af sem stýrimaður á Sigþóri ÞH. Eidi kynntist mismunandi veiðiskap s.s. línuveiðum, netaveiðum, rækjuveiðum og síldveiðum. 

Eidi hætti formlega störfum þegar hann komst á  aldur árið 2001. Hann hætti þó ekki alveg enda ekki hans stíll að liggja upp í rúmi og horfa upp í loftið aðgerðarlaus. 

Frá þeim tíma hefur hann verið afar duglegur við að aðstoða Hauk Eiðsson útgerðarmann sem er sonur hans. Haukur gerir út bátinn Karolínu ÞH frá Húsavík og oft má sjá Eida sniglast í kringum bátinn þegar hann er í landi eða þegar hann er að koma að landi eftir góðar veiðiferðir. Þá þarf að taka til hendinni.  

Líkt og Heimir er Eiður Gunnlaugsson vel að því kominn að vera heiðraður hér í dag fyrir dugnað og framlag hans til samfélagsins. Sannur sjómaður sem er enn að. Slíkir öðlingar eru vel að því komnir að vera heiðraðir fyrir áratuga sjómennsku. Eiður hafðu þakkir fyrir. 

Ágætu heiðursmenn, Heimir og Eiður, viljið þið koma hér upp og taka við orðum fyrir ykkar mikilvæga starf og farsæla sjómennsku. Ég vil biðja Sigríði að koma hér líka upp með Heimi og taka við smá þakklætisvotti frá okkur.

Það var klappað vel og lengi í dag til heiðurs Heimi Bessasyni og Eiði Gunnlaugssyni sem voru heiðraðir í dag á Húsavík en þeir hafa stundað sjómennsku í áratugi.

 Stefán hafnarvörður óskar Heimi og Eida til hamingju. Sjá má Kristján Eiðsson til hliðar.

Það voru margir sem samfögnuðu með heiðursmönnunum í dag.

Það er full ástæða til að hæla Sjómannadagsráði fyrir skipulagninuna og dagskrá hátíðarhaldana á Húsavík  um helgina. Góð þátttaka var í hátíðarhöldunum eins og þessi mynd ber með sér sem tekin var í dag í Sjómannadagskaffinu á Fosshótel Húsavík.

Húsvíkingar eiga einn besta kirkjukór landsins. Kórinn söng nokkur lög í Sjómannadagskaffinu í dag.