Góð staða Þingiðnar – hagnaður 12 milljónir

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gær. Fundurinn gekk vel og voru fundarmenn ánægðir með stöðu félagsins. Tillögur stjórnar sem lágu fyrir fundinum voru samþykktar samhljóða.  Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2012 voru 93 talsins sem er svipaður fjöldi milli ára. Karlar voru 91 og konur 2. Greiðandi einstaklingar voru 93 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins.

Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 6.188.698,- sem er 10,7% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2012 námu kr. 1.282.231,- og hækkuðu töluvert milli ára. Árið 2011 voru greiddar kr. 814.172,- í bætur úr sjúkrasjóði félagsins. Á árinu 2012 fengu samtals 32 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 12.259.798,- og eigið fé í árslok 2012 nam kr. 202.747.180,- og hefur það aukist um 6,67% frá fyrra ári.

 Hér má sjá skýrslu stjórnar:

Ársskýrsla

 Dagskrá: 

1.  Venjuleg aðalfundarstörf
ü   Skýrsla stjórnar
ü  Ársreikningar
ü  Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
ü  Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
ü  Lagabreytingar
ü  Ákvörðun árgjalda
ü  Laun stjórnar
ü  Kosning löggilts endurskoðanda 

2.  Önnur mál 

Tillögur sem liggja fyrir fundinum: 

Tillaga I Löggiltur endurskoðandi félagsins
Tillaga stjórnar er að PriceWaterhouseCoopers sjái um löggilta endurskoðun Þingiðnar fyrir starfsárið 2013. 

Tillaga II Um félagsgjald
Tillaga stjórnar er að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum. 

Tillaga III  Laun stjórnar
Tillaga er um að laun stjórnar með óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. 

Tillaga III Ráðstöfun á tekjuafgangi
Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári. 

Tillaga IV
Tillaga er um að stjórn félagsins verði heimilt að samræma greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins til jafns við reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar verði samþykkt á aðalfundi Framsýnar að breyta reglugerð sjúkrasjóðs félagsins. Forsendan fyrir því er að fyrir liggi úttekt á sjúkrasjóði Þingiðnar frá endurskoðanda félagsins. 

Tillaga V Stjórn, ráð og nefndir
Samþykktar tillögur Kjörnefndar félagsins um félagsmenn í trúnaðarstöður fyrir starfsárin 2012-2014 eru aftast í skýrslu stjórnar.

                                                  Skýrsla stjórnar

1. Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 29. maí 2012 eru eftirfarandi: 

Stjórnarfundir                                                              6
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna              2 
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna                                   3                                

Fundir í 1. maí nefnd                                                   2
Fundir skoðunarmanna reikninga                                1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs                                         12
Félagsfundir                                                                0 
Samtals fundir                                                           26

Að venju hefur formaður félagsins verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Jafnframt má geta þess að forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, kom norður og fundaði með fulltrúum Þingiðnar, Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar um verkalýðsmál og þjóðmálin almennt. Fundurinn á Húsavík var liður í fundaherferð forsetans um landið. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins.

2. Félagatal
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2012 voru 93 talsins sem er svipaður fjöldi milli ára. Karlar voru 91 og konur 2. Greiðandi einstaklingar voru 93 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Greiðendum til félagsins fækkaði milli ára.

3. Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 6.188.698,- sem er 10,7% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2012 námu kr. 1.282.231,- og hækkuðu töluvert milli ára. Árið 2011 voru greiddar kr. 814.172,- í bætur úr sjúkrasjóði félagsins.

Á árinu 2012 fengu samtals 32 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði.

Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 12.259.798,- og eigið fé í árslok 2012 nam kr. 202.747.180,- og hefur það aukist um 6,67% frá fyrra ári.

Árið 2011 var hreinn tekjuafgangur félagsins hins vegar kr. 11.967.639,-  Tekjuafgangur jókst því aðeins milli ára.

Þá má geta þess að samþykktar voru nýjar reglur um innheimtu félagsgjalda og annarra gjalda sem atvinnurekendum ber að skila til aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Reglurnar gilda frá 1. janúar 2013. 

4. Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.

Framboðið sumarið 2013 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Reyndar verður til viðbótar boðið upp á orlofshús á Einarsstöðum við Egilsstaði sem var ekki í boði síðasta sumar.

Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi.

Þá fengu 8 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 76.400,-.

Til stendur að stéttarfélögin standi fyrir sumarferð á Langanesið í haust enda verði þátttakan viðunandi.

5. Þorrasalir 1-3
Á síðasta ári fjárfesti félagið í íbúð í Þorrasölum í Kópavogi. Íbúðin hefur nánast verið í stöðugri leigu frá þeim tíma. Það er mat stjórnar að félagið hafi gert góð kaup enda hefur matið á íbúðinni hækkað frá þeim tíma. Almenn ánægja hefur verið meðal þeirra sem gist hafa í orlofsíbúðinni með íbúðina og staðsetninguna.  

6. Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn.  Á síðasta ári fengu 8 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 398.087,-

7. Kjaramál
Gengið var frá samkomulagi milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins í febrúar 2012 um ákveðnar breytingar á gildandi kjarasamningi. Samningsforsendur voru brostnar en samkomulagið byggði á smávægilegum breytingum á gildandi kjarasamningi og að kjarasamningurinn renni út í lok nóvember 2013 en ekki í lok janúar 2014.

8. Atvinnumál
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum hefur almennt verið nokkuð gott miðað við ytri aðstæður og lítið um atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Framtíðin er hins vegar óljós en vonir eru bundnar við að stórfyrirtækið PCC taki ákvörðun í haust um að hefja framkvæmdir á Bakka. Gerist það, þurfa félagsmenn Þingiðnar væntanlega ekki að kvarta undan verkefnaskorti á komandi árum.

9. Vinnustaðaskírteini
Rétt er að ítreka það að 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag milli ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini. Samkomulagið nær til starfsmanna og fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð sem og rekstri gististaða og veitingahúsa. Virði fyrirtækin ekki samkomulagið eiga þau á hættu að fá háar sektir. Aðalsteinn Á. Baldursson er skipaður eftirlitsmaður á félagssvæði Þingiðnar.

10. Hátíðarhöldin 1. maí
Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2013.  Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega og fjöldi fólks lagði leið sína í höllina. Talið er að tæplega 800 manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum. 

11. Starfsemi félagsins
Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Leifsson, Sigurður Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson. Eitt ár er eftir af kjörtímabilinu.

Félagið stóð fyrir jólaboði í desember með öðrum stéttarfélögum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Um 350 manns komu í heimsókn.

Síðasta haust komu fulltrúar frá Félagi Málmiðnarmanna á Akureyri ásamt fulltrúum frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og Sjómannafélagi Eyjafjarðar í heimsókn til Húsavíkur. Fulltrúar frá Þingiðn og Framsýn tóku á móti gestunum.

Félagið færði Velferðarsjóði Þingeyinga peningagjöf kr. 100.000,- í desember 2012 en sjóðurinn hefur komið að því að styrkja fólk sem stendur illa fjárhagslega.

Félagið færði skólasafni Borgarhólsskóla kr. 50.000,- til kaupa á bókum fyrir safnið en fjármagn til safnsins hefur verið skorið verulega niður á undanförnum árum. Þess vegna leituðu forsvarsmenn safnsins til Þingiðnar um aðstoð.

Félagið færði Framhaldsskólanum á Húsavík fjórar Örtölvur til notkunar við kennslu í skólanum upp á samtals kr. 60.000,-. Örtölvurnar byggja á opnum hugbúnaði og eru hannaðar til að auðvelda notkun rafeindatækni í ýmiss konar verkefnum. Tölvurnar eru forritaðar með forritunarmáli sem líkist C++.

Félagið lét gera bækling með helstu réttindum félagsmanna úr sjóðum félagsins sem kemur að góðum notum fyrir félagsmenn.

Félagið hefur gengið frá samkomulagi við VÍS um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samkomulagið nær til þeirra félaga sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna.

12. Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Stöðugildi eru 5.3. Þar af greiðir VIRK- Starfsendurhæfingarsjóður eitt stöðugildi. Rekstraraðilar eru; Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur.

Breytingar verða á starfsmannahaldi í sumar. Orri Freyr mun láta af störfum í lok júní sem fjármálastjóri og um þessar mundir er unnið að því að ráða nýjan starfsmann í hans stað. Ráðning á nýjum starfsmanni liggur vonandi fyrir í næstu viku. Alls sóttu 14 aðilar um starfið.

Töluvert vatnstjón varð á Skrifstofu stéttarfélaganna síðasta sumar. Til stendur að ráðast í lagfæringar í haust en tjónið verðu bætt af tryggingafélagi stéttarfélaganna. Þá er til skoðunar að gera tilboð í efrihæðina að Garðarsbraut sem snýr að Árgötunni. Fulltrúaráð stéttarfélaganna sem skipað er formönnum aðildarfélaganna er þeirrar skoðunar að félögin eigi að bjóða í eignina. Stjórnir félaganna taki síðan endanlega ákvörðun.

Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu sem fjöldi fólks heimsækir daglega og þá kemur Fréttabréf stéttarfélaganna reglulega út fullt af fróðleik og upplýsingum til félagsmanna. Þá er skrifstofan opin átta tíma á dag.

Skrifstofa stéttarfélaganna er í góðu sambandi við félagsmenn stéttarfélaganna og eru heimsóknir á hana mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar.

Góð nýting hefur verið á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna og þá hefur notkunin stóraukist varðandi aðra starfsemi eftir að fundaraðstaðan var tekin í gegn.

13. Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

Þingiðn- Stjórn og nefndir 2012-2014

 

Aðalstjórn (jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs):

 

Jónas Kristjánsson                  Formaður                    Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Vigfús Leifsson                                  Varaformaður             H-3 ehf.

Kristinn Gunnlaugsson                       Ritari                           Trésmiðjan Rein  ehf.

Þórður Aðalsteinsson              Gjaldkeri                     Trésmiðja Rein ehf.

Sigurður Hreinsson                 Meðstjórnandi             H-3 ehf.

Varastjórn:

Gunnólfur Sveinsson                                                 Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Eydís Kristjánsdóttir                                                  Trésmiðjan Rein ehf.

Hólmgeir Rúnar Hreinsson                                        Trésmiðjan Rein ehf.

Daníel Jónsson                                                                      Grímur ehf.

Trúnaðarmannaráð:

Sigurjón Sigurðsson                                                   H-3 ehf.

Ólafur Karlsson                                                                     Fjallasýn  ehf.  

Kormákur Jónsson                                                     Norðurpóll ehf.

Kristján G. Þorsteinsson                                             Bílaleiga Húsavíkur ehf.

Stefán Sveinbjörnsson                                                           Grímur ehf.

Andri Rúnarsson                                                        Fjallasýn ehf.

Varatrúnaðarmannaráð:

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson                                              Norðurpóll ehf.

Kristján Gíslason                                                       Norðlenska ehf.

Erlingur S. Bergvinsson                                                         Frumherji hf.

Daníel A. Jónsson                                                      Grímur ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga:                                              Kjörstjórn:

Jón Friðrik Einarsson                                                 Andri Rúnarsson

Arnþór Haukur Birgisson                                           Gunnólfur Sveinsson

Varamaður:                                                                Varamenn:

Steingrímur Hallur Lund                                             Jónas Gestsson

Kristján Gíslason

Kjörnefnd:                                                                1. maí nefnd/fulltrúi

Jón Friðrik Einarsson                                                 Arnþór Haukur Birgisson

Jónmundur Aðalsteinsson

Sigmar P. Mikaelsson

Löggiltur endurskoðandi:

PriceWaterhouseCoopers fyrir starfsárið 2013.

Jónas Kristjánsson er formaður Þingiðnar. Orri Freyr Oddsson fjármálastjóri stéttarfélaganna fór yfir ársreikninga félagsins. Orri lætur af störfum í sumar og í næstu viku verður ráðinn nýr starfsmaður í hans stað.