Alþingi afgreiði frumvörp um atvinnuuppbyggingu á Húsavík

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í gær um mikilvægi þess að tvö frumvörp sem skipta miklu máli fyrir frekari atvinnuuppbyggingu á Húsavík verði samþykkt fyrir þinglok. Sjá ályktun: 

Ályktun um atvinnumál 

„Framsýn stéttarfélag hvetur Alþingi til að ljúka þeim mikilvægu málum sem liggja fyrir þinginu og varða m.a. uppbygginu kísilvers á Bakka við Húsavík. 

Um er að ræða tvö frumvörp sem Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra  hefur lagt fram og varða annars vegar heimild til að gera fjárfestingarsamning um byggingu kísilvers á Bakka og hins vegar um uppbyggingu tiltekinna innviða sem er nauðsynleg forsenda verkefnisins, einkum vegtengingu milli hafnarinnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka og stækkun Húsavíkurhafnar. 

Það er von Framsýnar að Alþingi beri gæfa til að klára málið og stígi þannig veigamikið skref í uppbyggingu nýs iðnaðarsvæðis á Norðurlandi, þjóðinni allri til heilla.“