Fundað um kjör starfsfólks við hvalaskoðun

Forsvarsmenn Framsýnar funduðu með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins fyrir helgina um kjarasamning fyrir starfsmenn hvalaskoðunar fyrirtækjanna á Húsavík. Fundurinn var haldinn í Reykjavík. Áður höfðu fyrirtækin tekið ákvörðun um að vísa viðræðunum til SA. Nú þegar hafa verið haldnir tveir fundir milli aðila og er þriðji fundurinn fyrirhugaður í næstu dögum. Fulltrúar Framsýnar hafa lagt áherslu á að klára gerð samnings fyrir komandi vertíð í umboði starfsmanna fyrirtækjanna sem krefjast þess að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi fyrir þeirra störf. Fyrir liggur að hvalaskoðun er mjög ört vaxandi atvinnugrein.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, sagðist að sjálfsögðu virða kröfu starfsmanna enda ekki líðandi að starfsmenn hafi ekki kjarasamning. Þess vegna legði félagið áherslu á að klára samningagerðina fyrir vorið. Kröfu þess efnis hefði verið komið skýrt á framfæri við eigendur fyrirtækjanna  og Samtök atvinnulífsins.

Viðræður standa yfir um þessar mundir milli Samtaka atvinnulífsins og Framsýnar um kjör starfsfólks á hvalaskoðunarbátum.