Skilaði 5,3% raunávöxtun

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðfest ársreikning sjóðsins fyrir árið 2012. Nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins á árinu var 10,1% og raunávöxtun 5,3%.

Alls greiddu 18.505 sjóðfélagar hjá 2.609 launagreiðendum iðgjöld til deildarinnar á árinu og námu iðgjöldin 5,9 milljarða króna og hækkuðu um 7,3% frá fyrra ári.  Lífeyrisgreiðslur deildarinnar námu 3,4 milljörðum króna og hækkuðu um 5,1% frá fyrra ári.

Séreignadeild sjóðsins býður upp á þrjár ávöxtunarleiðir, með mismunandi áhættu, Safn I, Safn II og Safn III.  Ávöxtun allra leiða gekk vel og var raunávöxtun þeirra 4,1%, 6,1% og 2,5% á árinu 2012.

Heildareignir sjóðsins námu  131,7 milljörðum króna og hækkuðu um 14,5 milljarða frá fyrra ári eða um 12,4%.

Tryggingafræðileg úttekt hefur verið gerð á stöðu tryggingadeildar sjóðsins í árslok 2012, en áunnin réttindi voru skert um 7,5% á árinu skv. ákvörðun ársfundar. Tryggingafræðileg staða var neikvæð í árslok um 4%. (mbl.is)