Komið til móts við unga félagsmenn

Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar fyrir helgina var samþykkt að koma frekar til móts við ungt fólk sem stundar nám með vinnu og greiðir því óreglulega til félagsins. Þannig verður heimilt að taka tillit til greiðslu félagsgjalds síðustu 24 mánaða í stað síðustu 6 mánaða þegar réttur viðkomandi einstaklinga er reiknaður.

Í þeim tilfellum þegar nemendur hafa aðeins unnið í þrjá mánuði á ári með námi hafa þeir ekki náð að öðlast rétt á endurgreiðslum hjá félaginu. Nú verður hins vegar heimilt að meta vinnuframlag þeirra tvo sumur þegar réttur þessara einstaklinga er reiknaður. Um er að ræða töluverða réttarbót fyrir ungt fólk. Þar sem staða Framsýnar er góð er félaginu kleift að gera þessa breytingu ungum félagsmönnum til hagsbóta. Sjá samþykktar reglur:

 Reglur um endurgreiðslur vegna þeirra sem stunda nám með vinnu

 Í þeim tilfellum þegar námsmenn eru einungis í sumarvinnu skal heimilt að meta réttindi þeirra úr sjóðum Framsýnar miðað við greiðslur viðkomandi einstaklinga til félagsins  síðustu 24 mánuði.

 Umsækjandi þarf  að hafa greitt í allt að sex mánuði á tímabilinu til að öðlast rétt úr sjóðum félagsins t.d. tvö sumur á tveggja ára tímabili áður en sótt er um styrki frá félaginu.
Formleg aðild að félaginu er einnig skilyrði fyrir styrkveitingum.

Almenna reglan hjá Framsýn er að félagsmenn hafi greitt samfellt í sex mánuði af síðustu 12 mánuðum áður en þeir öðlast réttindi á greiðslum úr sjóðum félagsins.  Undantekning frá þessari reglu er þegar menn flytjast milli stéttarfélaga innan ASÍ. Í slíkum tilfellum geta viðkomandi einstaklingar átt rétt á endurgreiðslum úr sjúkrasjóði eftir mánaðarvinnu á félagssvæði Framsýnar.

 Samþykkt á stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundi 24. janúar 2013