Samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins um endurskoðun kjarasamninga er í burðarliðnum þannig að flest bendir til þess að samningunum verði ekki sagt upp næsta mánudag þrátt fyrir forsendubrest. Í samkomulaginu er komið inn á jöfnun lífeyrisréttinda, aukin framlög í starfsmenntasjóði og að samningstíminn verði styttur um tvo mánuði. Á allra næstu dögum mun ráðast hvort gengið verði frá samkomulaginu á þessum nótum eða ekki en formannafundi sem ASÍ hafði boðað til á föstudaginn vegna endurskoðunar kjarasamninga hefur verið aflýst. Væntanlega vegna þess að drög að samkomulagi milli SA og ASÍ liggja fyrir. Verði gengið frá samkomulaginu er ljóst að verkalýðshreyfingin þarf að hefjast handa við að móta kröfugerð fyrir komandi viðræður við atvinnurekendur þar sem kjarasamningarnir renna út 30. nóvember samkvæmt samkomulaginu en ekki í lok janúar 2014. Framundan er því annasamir mánuðir í starfi stéttarfélaga á Íslandi.
Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hafa fundað undanfarið um endurskoðun kjarasamninga. Samkomulag er á borðinu.