Í haust hefur Starfsgreinasambandið sem Framsýn á aðild að átt fulltrúa í nefnd á vegum Innanríkisráðuneytisins um endurmenntun atvinnubílstjóra en samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins þarf að skilyrða endurnýjun starfsleyfa við að bílstjórar fari í gegnum endurmenntun.Starfsgreinasambandið hefur lagt á það áherslu að bílstjórarnir þurfi ekki sjálfir að standa straum af kostnaði vegna endurmenntunarinnar og að þeim verði gefið gott tímasvigrúm til að sækja sér menntun. Þá er lagt til að bílstjórar geti valið um að sækja menntunina í smá skömmtum á löngum tíma. Einnig leggur sambandið áherslu á að bílstjórarnir þurfi ekki að gangast undir próf heldur sé litið á þetta sem fræðslu. Ef vel er staðið að þessu getur endurmenntunin styrkt stöðu atvinnubílstjóra á vinnumarkaðnum, aukið færni í greininni og veitt fræðslu um helstu nýjungar.
Alls þurfa atvinnubílstjórar að sækja 35 kennslustunda fræðslu en það má skipta þessu niður á vikur, mánuði og jafnvel ár. Hvaða frestur verður gefinn til að ljúka endurmenntuninni er ekki alveg ljóst en öðrum áhersluatriðum hefur verið mætt. Það hefur verið markmið allra sem standa að þessum viðræðum að standa við skuldbindingarnar á sem þægilegastan og hagkvæmastan hátt.