Viðræður framundan um kjör starfsmanna við hvalaskoðun

Stjórn Framsýnar mun fjalla um nýlegt erindi  hvalaskoðunarfyrirtækjanna, Norðursiglingar og  Hvalaferða á fundi sínum á morgun en þau hafa ákveðið að fela Samtökum atvinnulífsins að sjá um samningamál fyrir fyrirtækin.  Framsýn hefur lengi talið ástæðu til að gerður yrði sérkjarasamningur um kjör, tryggingar og réttindi starfsmanna sem starfa við þessa vaxandi atvinnugrein á Húsavík. Ekki síst þar sem hún kemur bæði inn á sjómennsku og eins ferðaþjónustu. Starfsmenn fyrirtækjanna hafa þrýst verulega á Framsýn að gera samning fyrir þeirra hönd. Fulltrúar frá Framsýn og Samtökum atvinnulífsins munu væntanlega funda um málið á næstu dögum. Vonandi munu þessar viðræður leiða til þess að samningur muni liggja fyrir þegar vertíðin hefst á ný vorið 2013. Þá er vitað að fleiri aðilar hafa til skoðunar að hefja hvalaskoðun frá Húsavík næsta sumar enda flóinn líflegur og því mikill áhugi fyrir því hjá ferðafólki að skoða lífríkið á Skjálfanda.