Allt á fullu hjá Vísi hf. á Húsavík

Það var mikið að gera hjá starfsmönnum Vísis hf. á Húsavík í dag þegar formaður Framsýnar var þar á ferð. Um 60 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu, þar af rúmlega fjörutíu erlendir starfsmenn. Öll borð voru full af fallegri ýsu sem beið þess að vera snyrt og komið fyrir í þar til gerðar pakkningar til útflutnings.  Vísir hefur í gegnum tíðina rekið öfluga fiskvinnslu á Húsavík og hefur lagt mikið upp úr því að skapa starfsmönnum góða vinnuaðstöðu. Í því sambandi má geta þess að ein af fullkomnari flæðilínum landsins er í starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík en Vísir er með nokkrar starfsstöðvar á Íslandi.

Það eru ekki margar konur á Íslandi sem hafa skapað eins mikinn gjaldeyri eins og Fríða Finna sem er hér við störf, enda lengi unnið í fiski. Þetta er fólkið sem á að fá fálkaorðu fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar.

Tóti og Lilli sem eru magnaðir menn með sterkarar skoðanir króuðu formann Framsýnar að í morgun og vildu ræða ýmislegt ekki síst verkalýðs- og stjórnmál.

Það er örugglega ekki formanni Framsýnar að þakka að allir voru í stuði hjá Vísi í dag!!

Sæll Kúti, hvað segir þú? Já formaður Framsýnar fékk margar og góðar spurningar í morgun frá starfsmönnum Vísis hf. sem voru almennt ánægðir með sína stöðu.

Starfsemi Vísis skiptir verulega miklu máli fyrir atvinnulífið á Húsavík enda með stærri vinnustöðum á svæðinu. Gott atvinnuástand á Húsavíkursvæðinu í sumar er ekki síst því að þakka að fyrirtækið hélt uppi reglulegri vinnu fyrir utan reglubundið sumarfrí starfsmanna. Því miður þurfti fyrirtækið, þar á undan, að loka í allt að þrjá mánuði yfir sumartímann vegna hráefnisskorts.