Drífa ráðin framkvæmdastjóri

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og tekur til starfa 17. september næstkomandi. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason starfar við hlið Drífu til áramóta. Framsýn er aðili að Starfsgreinasambandinu. Drífa hefur nýlokið meistaragráðu í vinnurétti frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð en er einnig menntuð tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Drífa hefur látið sig málefni vinnumarkaðarins varða bæði í gegnum Iðnnemasamband Íslands á árum áður og í gegnum nám sitt. Í lokaverkefni sínu í viðskiptafræði fjallaði Drífa um kjarasamningagerð og launamun kynjanna en meistararitgerðin fjallaði um lagaumhverfi starfa sem unnin eru inni á heimilum. Þá hafa jafnréttismál verið henni hugleikin og hefur hún skrifað fjölmargar greinar og pistla á því sviði. Drífa er búsett í Reykjavík ásamt dóttur sinni. Starfsgreinasambandið býður Drífu velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir sambandið.