Framkvæmdir á og við Húsavík

Samkvæmt upplýsingum úr framkvæmdageiranum er verkefnastaða þessa dagana ágæt, sum fyrirtæki hafa verkefni vel fram á veturinn á meðan önnur hafa verkefni í nokkra mánuði. Í þeim geira er vænst frekari verkefna við uppbyggingu í tengslum við orkufrekan iðnað við Húsavík. Starfsmaður stéttarfélaganna var á ferðinni í vikunni en nokkuð er um framkvæmdir þessa dagana. Víða unnið að undirbúningi framkvæmda og önnur verkefni eru þegar hafin eða við það að ljúka. Á meðfylgjandi myndum má sjá stöðu framkvæmda. 

Framkvæmdir eru hafnar hjá Trésmiðjunni Rein á stóru iðnaðarhúsi, sem fyrirtækið hyggst nýta sjálft að hluta til og selja hluta til annarra aðila. 

Þá hafa staðið yfir jarðvegsathuganir og boranir á væntanlegri iðnaðarlóð PCC og væntanlegu vegstæði milli iðnaðar- og hafnarsvæðisins. 

Á Húsavíkurvelli er unnið við lokafrágang stærsta upphitaða gervigrasvallar landsins, sem mun verða mikil lyftistöng fyrir útivistar- og íþróttafólk og bæta aðstæður til útiveru og hreyfingar allt árið. Næstu daga hefjast þar framkvæmdir við þjónustuhús við völlinn, þar sem verða m.a. búningsklefar og önnur aðstaða fyrir starfsmenn og notendur íþróttavallarins en Trésmiðjan Rein átti lægsta boð í byggingu þjónustuhússins.

Í Haukamýri mátti svo sjá starfsmenn Norðurvíkur vinna við byggingu húsnæðis fyrir verksmiðju Hvannalinda ehf. sem hefur verið að þróa heilsuafurðir og lyf úr jurtum.