Ríkissáttasemjari boðar til sáttafundar

Ríkissáttasemjari hefur ákveðið að boða fulltrúa Framsýnar og Kletts félags smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi til sáttafundar 4. júní í húsnæði Ríkissáttasemjara í Reykjavík. Framsýn vísaði nýlega kjaradeilu félagsins við Klett til Ríkissáttasemjara þar sem samningar milli aðila hafa ekki tekist. Framsýn er eina félagið innan Sjómannasambandsins sem vísaði ekki samningsumboðinu til sambandsins. Framsýn mun því sjálft semja við smábátaeigendur á Húsavík í gegnum þeirra hagsmunafélag sem er Klettur. Fulltrúar frá sjómönnum innan Framsýnar munu taka þátt í fundinum í Reykjavík í byrjun júní hjá Ríkissáttasemjara.