Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs

Í kjarasamningum árið 2008 komu inn ákvæði um stofnun starfsendurhæfingarsjóðs. Um er að ræða sjálfseignarstofnun sem stjórnað er af aðilum vinnumarkaðarins. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi launagreiðenda 0,13% af launum.

            Virk – starfsendurhæfingarsjóður hóf starfsemi á árinu 2009. Í samvinnu við Framsýn stéttarfélag hófst starfsemin í Þingeyjarsýslum á haustdögum 2009. Í febrúar 2010 var síðan gerður samningur milli Framsýnar, Starfsmannafélags Húsavíkur, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs um aukna starfsemi á félagssvæðinu. Reynslan af þessu samstarfi var góð og var því ákveðið að auka starfsemina í ágúst 2010, með ráðningu ráðgjafa í fullt starf.

            Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að daga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga fellst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á hentugum úrræðum í samvinnu við fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu. 

            Vaxandi þáttur í starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóði er þjónusta og ráðgjöf við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Markmið samvinnunnar er að draga úr tíðni og lengd veikindafjarvista úr vinnu. Samvinna er m.a. um gerð fjarvistarstefnu, aðbúnað og aðstæður og önnur starfsmannatengd málefni.