Vilja halda viðræðum áfram við smábátaeigendur

Sjómannadeild Framsýnar samþykkti í morgun að óska eftir áframhaldandi viðræðum við Klett, félag smábátaeigenda á Norðurlandi sem er innan Landssambands smábátaeigenda (LS) um kjarasamning fyrir smábátasjómenn á félagssvæði Framsýnar. Viðræður milli aðila stóðu yfir á síðasta ári, eða þar til að Sjómannasamband Íslands og önnur samtök sjómanna hófu viðræður við Landssamband smábátaeigenda um kjarasamning á landsvísu. Öll félög Sjómannasambandsins fyrir utan Framsýn, það er 17 af 18 félögum veittu sambandinu umboð til gerðar kjarasamnings fyrir smábátasjómenn en slíkur samningur hefur ekki verið til fram að þessu. Framsýn taldi eðlilegt að fresta frekari viðræðum sem voru á lokastigi og hleypa Sjómannasambandinu að samningaborðinu enda með umboð fyrir 17 aðildarfélög. Þar sem viðræður Sjómannasambandsins og LS hafa ekki gengið eftir með kjarasamningi hefur Framsýn farið þess á leit við forsvarsmenn Kletts að viðræðum Framsýnar og félagsins verði fram haldið. Framsýn hefur heimildir fyrir því að deilu sjómannasamtakanna og Landssambands smábátasjómanna verði jafnvel vísað til ríkissáttasemjara á næstu dögum. Þá gætir óánægju meðal smábátasjómanna víða um land, með að ekki hafi tekist að ganga frá kjarasamningi um kaup og kjör. Það hefur komið skýrt fram á fundum þeirra síðustu vikurnar. Vaxandi óánægja er meðal smábátasjómanna á Íslandi varðandi kjör þeirra. Sjómenn sem starfa á bátum upp að 15 brúttótonnum hafa aldrei haft kjarasamning á landsvísu. Þeir krefjast þess að þegar í stað verði gengið frá kjarasamningi um kaup, kjör og tryggingamál.